Arnarbæliskirkja; 1. harmonium

<p>Þegar Jens Pálsson var prestur í Arnarbæli gerði hann það að sínu fyrsta verki að útvega orgel. Fyrir milligöngu Lefolis stórkaupmanns á Eyrarbakka keypti hann orgel frá Petersen&Steenstrup í Kaupmannahöfn. Orgelið kom vorið 1874 og var það fyrsta orgel sem kom í kirkju Í Árnessýslu og þá eina orgelið sunnanlands fyrir utan orgel Dómkirkunnar í Reykjavík. Fyrsti orgelleikari kirkjunnar var Guðrún Pétursdóttir (Gudjohnsen) kona hans en hún hafði lært að spila hjá föður sínum.</p> <p> Svo sem jeg hef auglýst í blaðinu Ísafold II, 29., gekkst jeg fyrir tveim árum síðan fyrir því, að menn hjer í prestakallinu skytu saman fje, til að kaupa fyrir það hljóðfæri (harmonium) til Arnarbæliskirkju. Tilefni til þessa var það, að kirkjusöngurinn í tveimur kirkju prestakallsins var svo bágur, þá er faðir minn kom hingað sóknarprestur og jeg sem aðstoðar prestur hans, að okkur kom ásátt um, að slíkur kirkjusöngur væri í alla staði ósamboðin helgri guðsþjónustugjörð; og þareð sú varð raun á, að enginn af fullorðnum mönnum Arnarbælissafnaðar var fær um, að leysa sómasamlega af hendi forsöngvarastörfin við guðsþjónustuna, virtist okkur það vera hið eina fullnægjandi úrræði, að fá gott hljóðfæri í kirkjuna, er notað yrði til, að laga og fegra sönginn við messugjörðirnar, samt til að kenna hinum yngri mönnum messusöngslögin óafbökuð og með þeirra sönnu fegurð. – Í þessu skyni tókst jeg á hendur, með samkomulagi við föður minn sóknarprestinn að gangast fyrir fjársamskotum í prestakallinu til þess, að fá keypt hljóðfærið handa kirkjunni. En þótt hinir beztu menn tækju vel undir fyrirtækið, og þótt jeg styddi málefnið eftir megni og jafnvel gjörði mér ferð á flesta bæi prestakallsins, til að mæla fram með því, þá urðu samskotin ekki meiri en 253 kr (tvö hundruð fimmtíu og þrjár krónur), og guldust svo dræmt, að jeg áleit ótiltækilegt að bíða með að panta hljóðfærið, þartil þau væru greidd, með því nauðsyn bar til, að hljóðfærið yrði flutt hingað með Eyrarbakka skipum næsta sumar (1874). Jeg sneri mjer þá þegar, áður en samskotin voru öll greidd, til Stórkaupmanns Lefolii, er jeg vissi að hafði sjeð Arnarbæliskirkju, og bað hann að kaupa handa nefndri kirkju mátulega hljóðsterkt hljóðfæri vel vandað og gjörði hann það, og ljet flytja það til Eyrarbakka næsta sumar – ókeypis. En hljóðfæri þetta kostaði í Kaupmannahöfn 368 kr. (þrjú hundruð sextíu og átta krónur), og nam þannig verð þess, 115 króna upphæð fram yfir það, er samskotin hrukku til. – Til þess nú að ráða úr þessu, og svo fyrirtækið ekki færist fyrir, lagði jeg peninga þessa út til stórkaupmannsins, og flutti hljóðfærið hingað þegar, og hefur síðan verið leikið á það, við sjerhverja guðsþjónustugjörð hjer í kirkjunni, og hefur það reynst hæfilega raddsterkt fyrir kirkjuna, og mjög vel vandað, enda hefur kirkjusöngurinn stórkostlega lagast og fegrast. Þar sem nú að fje það, er gefið hefur verið, var látið í tje í því skyni, að hljóðfærið gæti orðið eign Arnarbæliskirkju, og þareð hinsvegar að það fje, er vantar á verð hljóðfærisins, ekki nemur fullum þriðjung alls verðsins, þá leyfi jeg mjer, að láta það í ljósi, að mjer virðist mjög sanngjarnt, að kirkjan af sjóði sínum borgi mismun samskotaupphæðarinnar, og verðs upphæðarinnar, svo að hljóðfærið heilt og haldist geti orðið eign Arnarbæliskirkju; og virðist mjer þetta því æskilegra, sem hljóðfærið er nauðsynlegt hjer við messusönginn, og einn meðlimur safnaðarins fær um að brúka það við guðsþjónustuna, og hefur gjört og gjörir það án kröfu til nokkurs endurgjalds. Samkvæmt framanskrifuðu leyfi jeg mjer auðmjúklega að sækja um, að Yður, Háæruverðugi herra biskup Íslands, megi þóknast, að álitnum þóknanlegum tillögum hans háæruverðuguheita hjeraðsprófstins, að veita samþykki yðar til þess, að hinar framangreindu 115 krónur (hundrað og fimmtán krónur), er jeg hef borgað af andvirði hljóðfærisins, megi greiðast úr sjóði Arnarbæliskirkju mót því, að hljóðfærið verði eign kirkjunnar.</p> <p> Auðmjúklega, Arnarbæli 24. Martz 1876. Jens Pálsson</p> <p> Til Biskupsins yfir Íslandi. Heimid: Bréf til biskups ur Árnessýslu; varðveitt á Þjóðskjalasafni – Bps. C. V. 71B </p>

Skjöl

Tengt efni á öðrum vefjum

Framleiðandi
Gerð Petersen & Steenstrup
Staðir
1874 - 1923