Fríkirkjan í Reykjavík; 1. pípuorgl

Árið 1903 var byrjað að smíða pípuorgel fyrir Fríkirkjuna í Reykjavík. Sá sem það gerði var danskur maður, Christiansen að nafni. Hann starfaði á trésmíðaverkstæði Eyvindar Árnasonar og þar smíðaði hann vindhlöðurnar og kassann utan um orglið. Snertlaborð, pípur og aðra tæknihluti fékk hann frá Danmörku

Þetta orgel var með 12 röddum, tveim snertlaborðum og fótborði (pedal). Orgelið var vígt árið 1905 þannig að það er nú nákvæmlega 100 ár [2005]. Þetta er fyrsta pípuorgel sem smíðað er á Íslandi og þriðja pípuorgelið hér á landi.

Vegna þess að söfnuður Fríkirkjunnar í Reykjavík réðst í þessa orgelsmíð var árið 1904 keypt orgel frá I. P. Henriksen í Kaupmannahöfn fyrir Dómkirkjuna í Reykjavík, en þess má geta að árið 1907 og 1910 sá fyrrnefndur Christiansen um stækkun og breytingar á útliti þess hljóðfæris og því hefur þess misskilnings gætt að hann hafi einnig smíðað það hljóðfæriOrgel Fríkirkjunnar var í notkun allt til ársins 1926 er keypt var stórt konserthljóðfæri fyrir Pál Ísólfsson sem þá var organisti kirkjunnar. Gamla orgelinu var þá komið fyrir í geymslu upp á lofti kirkjunnar og var þar í mörg ár.

Heimild: Frá Fríkirkjunni

Framleiðandi
Gerð Christiansen
Staðir
1905 - 1926

Bjarki Sveinbjörnsson uppfærði 11.05.2016