Pétur Sigurgeirsson 02.06.1919-03.06.2010

<p>Prestur. Biskup. Pétur varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1940, lauk embættisprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands 1944, meistaragráðu í guðfræði við Mt. Airy Seminary í Fíladelfíu og nam einnig blaðamennsku, ensku og biblíufræði við Stanford University í Kaliforníu.</p>Pétur fæddist á Ísafirði. Foreldrar hans voru Sigurgeir Sigurðsson, biskup Íslands, og k.h., Guðrún Pétursdóttir húsfreyja.</p> Pétur var vígður aðstoðarprestur á Akureyri 1947 og skipaður sóknarprestur í Akureyrarprestakalli ári síðar. Hann var skipaður vígslubiskup í Hólabiskupsdæmi árið 1969, tók við embætti biskups Íslands hinn 1. október 1981 og gegndi því til 1989 er hann lét af störfum fyrir aldurs sakir. Pétur var einstaklega elskulegur maður, hæverskur í framkomu, vinsæll í öllum sínum embættum og lét víða til sín taka í kirkjulegu starfi og félagsstörfum. Hann var frumkvöðull í æskulýðsstarfi, stofnaði sunnudagaskóla og æskulýðsfélag við Akureyrarkirkju og var einn af stofnendum Æskulýðssambands kirkjunnar í Hólastifti. Þá vann hann að uppbyggingu sumarbúðanna við Vestmannsvatn. Pétur sat í kirkjuráði 1970-89 og var formaður þess 1981-89, sat á kirkjuþingi 1972-89 og var forseti þess frá 1981. Hann var formaður Hins íslenska biblíufélags 1981-89 og gegndi að auki fjölda annarra trúnaðarstarfa í samfélaginu. Eftir Pétur liggja bækur, sálmar, ljóð og fjöldi greina, m.a. barnabókin Litli-Hárlokkur og fleiri sögur, 1952; Grímsey, 1971, og endurminningar hans, Líf og trú, sem komu út árið 1997.</p> <p align="right">Merkir Íslendingar. Morgunblaðið. 2. júní 2016, bls. 27</p> <p align="right">Heimild: Guðfræðingatal 1847-2002 eftir Gunnlaug Haraldsson bls. 718-20 </p>

Staðir

Akureyrarkirkja Aukaprestur 20.02.1947-1948
Akureyrarkirkja Prestur 01.07.1948-1981

Aukaprestur , biskup , prestur og vígslubiskup

Gunnlaugur V. Snævarr uppfærði 6.12.2018