Unnur Fadila Vilhelmsdóttir 22.01.1962-27.01.2008

Unnur hóf nám í píanóleik sjö ára gömul í Barnamúsíkskóla Reykjavíkur hjá Málfríði Konráðsdóttur og hóf að því loknu nám við Tónlistarskólann í Reykjavík. Stúdentsprófi lauk hún frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti haustið 1980. Unnur nam frönsku við Sorbonne-háskóla í París og lauk BA-prófi í frönsku og bókmenntum frá Háskóla Íslands árið 1986. Hún lauk píanókennaraprófi 1990 og einleikaraprófi ári síðar. Aðalkennari hennar var Halldór Haraldsson. Þá hóf hún framhaldsnám í Bandaríkjunum undir handleiðslu Dr. William Black og lauk þaðan doktorsprófi í píanóleik haustið 1997. Unnur hlaut ýmsa námsstyrki, m.a. frá The American Scandinavian Foundation, University of Cincinnati og Námustyrk Landsbanka Íslands.

Eftir að hún fluttist heim til Íslands frá Bandaríkjunum tók hún virkan þátt í íslensku tónlistarlífi bæði sem einleikari og í samleik með öðrum. Píanókennari við Tónlistarskóla Kópavogs var hún 1997- 2004. Unnur var um tíma formaður Íslandsdeildar EPTA, Evrópusamtaka píanókennara. Fyrsta Píanókeppni EPTA hérlendis var haldin í hennar formannstíð. Á árinu 1997 hóf göngu sína tríó sem í léku Unnur á píanó, Eydís Franzdóttir á óbó og Kristín Mjöll Jakobsdóttir á fagott. Tríóið hélt 14 tónleika, þar af sex í Bandaríkjunum/Kanada, auk þess sem tríóið kom nokkrum sinnum fram með öðrum á tónleikum. Unnur sótti tíma hjá virtum kennurum svo sem John Lill, Ann Schein og György Sobök. Frá 1998 hélt hún níu einleikstónleika. Á árinu 2003 gaf Unnur út geisladiskinn Beethoven, Chopin, Prokofiev.

Píanóleikur Unnar var nokkrum sinnum hljóðritaður á vegum RÚV, t.a.m. var einleiksefnisskrá sem innihélt Etýðu eftir Rachmaninoff og Valsa eftir Ravel send út á páskadag árið 2000. Á árinu 2007 áformaði Unnur að halda tónleika sem ekki varð af vegna veikinda hennar, en á efnisskránni voru verk eftir Bach, Chopin, Debussy og Schumann.

Úr minningargrein í Morgunblaðinu 7. febrúar 2008, bls. 30.


Tengt efni á öðrum vefjum

Píanókennari og píanóleikari
Ekki skráð

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 27.11.2013