Unnur Fadila Vilhelmsdóttir 22.01.1962-27.01.2008

<p>Unnur hóf nám í píanóleik sjö ára gömul í Barnamúsíkskóla Reykjavíkur hjá Málfríði Konráðsdóttur og hóf að því loknu nám við Tónlistarskólann í Reykjavík. Stúdentsprófi lauk hún frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti haustið 1980. Unnur nam frönsku við Sorbonne-háskóla í París og lauk BA-prófi í frönsku og bókmenntum frá Háskóla Íslands árið 1986. Hún lauk píanókennaraprófi 1990 og einleikaraprófi ári síðar. Aðalkennari hennar var Halldór Haraldsson. Þá hóf hún framhaldsnám í Bandaríkjunum undir handleiðslu Dr. William Black og lauk þaðan doktorsprófi í píanóleik haustið 1997. Unnur hlaut ýmsa námsstyrki, m.a. frá The American Scandinavian Foundation, University of Cincinnati og Námustyrk Landsbanka Íslands.</p> <p>Eftir að hún fluttist heim til Íslands frá Bandaríkjunum tók hún virkan þátt í íslensku tónlistarlífi bæði sem einleikari og í samleik með öðrum. Píanókennari við Tónlistarskóla Kópavogs var hún 1997- 2004. Unnur var um tíma formaður Íslandsdeildar EPTA, Evrópusamtaka píanókennara. Fyrsta Píanókeppni EPTA hérlendis var haldin í hennar formannstíð. Á árinu 1997 hóf göngu sína tríó sem í léku Unnur á píanó, Eydís Franzdóttir á óbó og Kristín Mjöll Jakobsdóttir á fagott. Tríóið hélt 14 tónleika, þar af sex í Bandaríkjunum/Kanada, auk þess sem tríóið kom nokkrum sinnum fram með öðrum á tónleikum. Unnur sótti tíma hjá virtum kennurum svo sem John Lill, Ann Schein og György Sobök. Frá 1998 hélt hún níu einleikstónleika. Á árinu 2003 gaf Unnur út geisladiskinn Beethoven, Chopin, Prokofiev.</p> <p>Píanóleikur Unnar var nokkrum sinnum hljóðritaður á vegum RÚV, t.a.m. var einleiksefnisskrá sem innihélt Etýðu eftir Rachmaninoff og Valsa eftir Ravel send út á páskadag árið 2000. Á árinu 2007 áformaði Unnur að halda tónleika sem ekki varð af vegna veikinda hennar, en á efnisskránni voru verk eftir Bach, Chopin, Debussy og Schumann.</p> <p align="right">Úr minningargrein í Morgunblaðinu 7. febrúar 2008, bls. 30.</p>

Tengt efni á öðrum vefjum

Píanókennari og píanóleikari
Ekki skráð

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 27.11.2013