Poul Ottó Bernburg (P. O. Bernburg) 30.04.1882-09.07.1935

<blockquote>... Guðmundur Eiríksson heildsali, móðurbróðir Vigsdísar Finnbogadóttur fyrrum forseta, var kunnur hljómlistarmaður á sinni tíð. Hann lék oft með Bernburg og rómaði hann. Í grein sem Guðmundur birti í Vísi segir hann að það hafi mörgum „verið undrunarefni, að Bernburg, sem orðið hefir að vinna daglaunavinnu, skyldi ekki þreytast og stirðna þannig upp, að hann yrði óhæfur til að leika á fiðluna sína, en ástin á hljómlist og elja hans hefir hindrað það. Með siggið á fingrunum, eftir strit erfiðisvinnunnar, hefur hann gripið fiðlubogann og snert fiðluna svo, að hrifið hefir hugi margra og menn orðið að viðurkenna listamannseðlið, sem í honum býr“. Síðan víkur Guðmundur að því er þeir Brynjólfur Þorláksson og Bernburg léku saman sorgargöngulag Chopins í Dómkirkjunni við jarðarför Björns Jónssonar ráðherra (afa Björns Óafssonar fiðluleikara). Kveður Guðmunur samleik þeirra seint úr minni líða og nefndir „djúp áhrif“ á þá sem til heyrðu. Margir fleiri urðu til þess að vekja athygli á fiðluleik Bernburgs, t.d. Guðmundur Magnússon rithöfundur (Jón Trausti).<br /> <br /> „Hann hefir verið hetja í einkennilegri sögu, sem allir bæjarbúar hafa kunnað; hvort hún er sönn, læt ég ósagt. Hann er kyntur okkur sem frávillingur, glataði sonurinn eða eitthvað því um líkt. Það er sagt, að hann hafi flogið úr hreiðri fjölskyldu sinnar, frá auði og allsnægtum, virt alla föðurlegar áminningar vettugi og lifað lífi sínu í fullu frelsi og upp á eigin ábyrgð, en slíkt þykir ekki mikið lánsmerki, þótt oft þyki það sögulegt. Vel má svo vera, að Bernburg hafi aldrei kunnað að vera ríkur, en hefir þá í þess stað kunnað því betur að vera fátækur. Árum saman höfum við séð hann kjólklæddan uppi við orgelið í dómkirkjunni, aukandi viðhöfn þeirrar athafnar, sem þar fór fram, með fiðluspili sínu, og eftir svo sem klukkustund höfum við mætt honum í vinnufötum sínum í steinolíustritinu. En hvar sem Bernburg sést, er hann jafnan glaðlegur og brosandi og góður við alla. Aldrei sjást á honum nein merki rótgróinnar hugarbeiskju eða lífsþreytu. Og alstaðar ber hann það með sér, að hann er af betra bergi brotinn en almennt er um erfiðismenn og hefir fengið betra uppeldi. Jafnvel í óhreinlegum vinnufötum er einhver höfðingjabragur á honum. Anna Biering var eiginkona Bernburg...</blockquote> <p align="right">Úr grein Péturs Péturssonar, Konsert í Bárunni. Morgunblaðið. 2. apríl 2000, bls. B24</p>

Skjöl


Tengt efni á öðrum vefjum

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 9.04.2021