Elías Bjarnason 17.06.1879-04.01.1970

<p>Elías Bjarnason yfirkennari andaðist í Reykjavík 4. jan. 1970 rúmlega níræður að aldri, Hann var fæddur í Hörgsdal á Síðu 17. júní 1879. Elías var landskunnur maður fyrir kennslustörf sín og reikningsbækur þær sem hann samdi og gaf út og lengi hafa verið og eru enn notaðar. Kirkjutónlistin átti hauk horni þar sem Elías var. Sr. Bjarni Þorsteinsson segir svo á einum stað í riti sinu Íslenzk þjóðlög:</p> <blockquote>.... hefur Elías Bjarnason organisti í Hörgsdal sett þau (lögin) á nótur eftir því sem hún (Rannveig Sigurðardóttir) söng þau.“ Elías Bjarnason segir sjálfur svo frá því er hann byrjaði að læra á harmonium: „.... Fyrir nálægt 32 árum síðan var ég í fyrsta sinn sendur að heiman til sjóróðra á Eyrarbakka. Þar verða jafnan, sem kunnugt er, margir landlegudagar á vertíðum og þá daga var ekkert sérstakt við að vera fyrir ungling á mínu reki, annað en að slæpast. Frænda átti ég á Bakkanum, og til hans hvarflaði ég oftast, þegar ekkert var að gera. Ekki leið á löngu að frændi minn tæki eftir því, að mér leiddist iðjuleysið, og vildi úr því bæta. Einu sinni, þegar ég var hjá honum, segir hann við mig: „Farðu til Jóns Pálssonar“ (síðar bankaféhirðis) „og lærðu að spila á orgel; Þú gerir ekki annað þarfara.“ Þessu ráði hlýddi ég tafarlaust og reyndist það heillaráð þá strax - og ætíð síðan. - Jón Pálsson reyndist mér prýðilega í hvívetna. Hjá honum lærði ég undirstöðuatriðin í harmoníumspili ....</blockquote> <p>Síðar jók Elías miklu við leikni sína og kunnáttu á þessu sviði. Meðan Elías var kennari á Síðunni var hann organleikari við Prestsbakkakirkju og var fyrsti organisti við þá kirkju, og eftir að hann fluttist til Reykjavíkur og vara kennari við Barnaskóla Reykjavíkur var hann um árabil organisti við Viðeyjarkirkju þangað til eyjan fór í eyði og því síðasti organleikari sem við þá kirkju hefur verið - Elías kenndi mörgum að leika á harmoníum. Átti hann um tíma mörg hljóðfæri, sem hann léði gegn vægu gjaldi. Kom það sér vel fyrir marga því að hljóðfæraskorturinn var oft Þrándur í Götu hjá þeim, sem vildu læra á hljóðfæri. Árið 1930 samdi Elías og gaf út lítið rit: - Harmoníum - eru í því góðar og gagnlegar upplýsingar og leiðbeiningar um gerð og meðferð þeirra hljóðfæra. Elías fékkst lengi við hljóðfæraviðgerðir og hljóðfæraverzlun. Útvegaði hann m. a. hljóðfæri í margar kirkjur. Hljóðfæraverkstæðið og verzlunin er nú í höndum Gissurar sonar hans.</p> <p>Elías kvæntist 1904 Pálínu Elíasdóttur, bónda á Steinsmýri í Meðallandi. Lifir hún mann sinn ásamt 4 börum þeirra.</p> <p align="right">Organistablaðið. 1. nóvember 1970, bls. 23.</p> <p>Sjá einnig Kennaratal á Íslandi, 1. bindi bls. 122.</p>

Staðir

Prestbakkakirkja á Síðu Organisti 1900-
Viðeyjarkirkja Organisti -

Skjöl

Elias Bjarnason Mynd/jpg
Elias Bjarnason Mynd/jpg

Tengt efni á öðrum vefjum

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 19.12.2017