Tatu Kantomaa 30.08.1974-

Tatu Kantomaa er frá Rovaniemi í norður Finnlandi. Aðeins 7. ára gamall byrjaði hann að læra á harmoniku hjá föður sínum. 8. ára fór hann í harmonikuskóla Veikko Ahvenainen, þekkts meistara sem var á þessum tíma með 16 skóla vítt um Finnland. Tatu sýndi fljótt slíka hæfileika að Ahvenainen tók hann í einkatíma. Og fljótlega eftir það fóru Tatu að koma fram á tónleikum með lærimeistara sínum víða í norður Finnlandi.

Aðeins 11. ára gamall hélt Tatu sína fyrstu einleikstónleika og varð þar með viðurkenndur sem harmonikuleikari og þekktur um allt Finnland. Á 12. ári gaf Tatu út einleiksplötu og fór sama ár í tónleikaferð til Bandaríkjanna með kennara sínum Veikko Ahvenainen og árið eftir í þriggja vikna tónleikaferð til Japans, Rússlands og Austur-þýskalands. En auk þess hefur Tatu haldið tónleika í Noregi, Svíþjóð, Austurríki og svo hér á Íslandi.

Árið 1985 og 1987 var Tatu í öðru sæti í harmonikukeppni til minningar um einn þekktasta snilling Finnlands, Viljo Vesterinen. Það var svo árið 1989 sem Tatu vann þessa sömu keppni, þá aðeins 15 ára gamall.

Árið 1993 var landsmót sambands íslenskra harmonikuleikara haldið á Egilsstöðum. Á þetta landsmót kom Tatu ásamt Daníel Isaksson frá Svíþjóð sem var 16 ára gamall. Þar með hófust þau góðu kynni á milli Tatu og Harmonikufélags Héraðsbúa sem urðu til þess að Tatu hefur dvalið þar á tímum, hljóðritað og gefið út efni. Það er óneitanleg staðreynd að Tatu Kantomaa hefur verið lyftistöng fyrir Harmonikufélag Héraðsbúa enda má heyra á plötum hans að þar er ekki neinn meðal maður á ferð. Tatu hefur einnig tekið þátt í gerð fleirri platna hér á landi.

Tónlist.is [2013]


Tengt efni á öðrum vefjum

Harmonikuleikari
Ekki skráð

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 8.11.2013