Jón Jónsson (Jón frá Ljárskógum) 28.03.1914-07.10.1945

... Jón fæddist hinn 28. mars 1914 að Ljárskógum, sonur Jóns Guðmundssonar bónda og Önnu Hallgrímsdóttur. Á heimili Jóns var mikið um að vera í æsku, en faðir hans sinnti einnig meðfram bústörfum ljósmyndun og silfursmíði, auk þess sem hann bæði skaut refi og reyndi fyrir sér í refaræktun, einna fyrstur manna á Íslandi. Jón var yngstur í stórum systkinahópi en var mjög bráðger andlega.

Samkvæmt frásögn Ragnars Jóhannessonar, æskuvinar Jóns, í kveðjuorðum var hann barn að aldri þegar Jón fór að yrkja, og voru „mörg æskuljós hans líkari því, að höfundurinn væri fullþroska maður en ekki barn“.

Jón fór árið 1929 í Menntaskólann á Akureyri. Þar kynntist hann þeim bræðrum Þorgeiri og Steinþóri Gestssonum á Hæli og Jakobi Hafstein. Árið 1932 mynduðu þeir fjórmenningar MA-kvartettinn og nefndu eftir skólanum sínum. Kvartettinn starfaði saman næstu tíu árin og naut feiknamikilla vinsælda hér á landi. Sagði Baldur Andrésson, tónlistargagnrýnandi Vísis, að galdurinn á bak við vinsældir þeirra væri að þeir væru allir „mjög músíkalskir menn, sem syngja lögin eftir efni ljóðanna, þannig að ljóðin leysast úr læðingi og verða að lifandi viðburðum“. Jón söng þar 2. bassa, og var eftir því tekið hvað hann hafði fagra söngrödd. Varð kvartettinn allmerkur liður í tónlistarlífi landsins samkvæmt Morgunblaðinu í marsmánuði 1942.

Jón fluttist til Reykjavíkur 1934 og innritaðist í guðfræðideild Háskólans, þar sem hann nam næstu fimm árin. Jóni þótti námið þó verra en vonir hans höfðu staðið til og lauk því aldrei prófi. Hamingjan brosti þó við honum, því að á þessum tíma kynntist hann verðandi eiginkonu sinni, Jónínu Kristjánsdóttur, frá Ísafirði. „Við kynntumst á skemmtun þar sem hann var að syngja, og eftir það vorum við alltaf í sambandi,“ segir Jónína. Fyrst um sinn í sambandi þeirra var hún í vist í Reykjavík, en MA-kvartettinn fór þá hringferð um landið, og varð kvartettinn fyrsta hljómsveitin til þess að leggja í slíka för.

Þegar heim var komið ákváðu þau Jón og Jónína að flytjast vestur á Ísafjörð. Jónína minnist þess að hann hafi varla verið búinn að vera á Ísafirði í þrjá daga þegar Guðmundur Hagalín kom og réð hann til grunnskólans. Jón kenndi ýmsar greinar við skólann, meðal annars ensku, en Jón var mikill málamaður. Jónína segir að hann hafi nýtt sér þá kunnáttu mikið, og meðal annars þýtt margar bækur.

„Við vorum á Ljárskógum eitt sumar, og þá gat hann setið heilu dagana og þýtt,“ segir Jónína. Á kvöldin sungu þau síðan saman og spiluðu, en tónlistin var þeim báðum í blóð borin. Ein af bókunum sem Jón þýddi var Frú Roosevelt segir frá, sjálfsævisaga Eleanor Roosevelt, forsetafrúr í Bandaríkjunum, sem kom út árið 1942.

Örlögin tóku hins vegar í taumana, því að Jón veiktist þá um haustið. „Hann fékk heiftarlegt kvef og fór í rúmið,“ segir Jónína. Sonur þeirra, Hilmar Bragi Jónsson, matreiðslumaður, var þá hálfsmánaðargamall. Kom fljótlega í ljós að Jón var kominn með berkla og var ekki um annað að ræða en að fara með hann á Vífilsstaðaspítala. „Ég vann þarna í rúm þrjú ár við að smyrja brauð svo ég fengi að vera hjá honum,“ segir Jónína, en henni fannst erfitt á Vífilsstöðum. „En svona er lífið og við verðum að taka því eins og það er,“ segir Jónína.

Jón lést 7. október 1945 á Vífils- stöðum, 31 árs að aldri.

Þrátt fyrir stutta ævi var Jón vinnusamur alla tíð, þó að undir það síðasta hefði verið orðið erfitt fyrir hann að halda á bók. „Hann var alltaf að yrkja, og á Vífilsstöðum orti hann þrjátíu ljóð til mín og öll jafnfalleg,“ segir Jónína og hlær. En þó að tími þeirra saman hafi verið stuttur minnist Jónína hans með miklum hlýhug. „Við áttum bara saman yndislega góðan tíma.“

Hann hreyfði hjartans innsta streng – 100 ár liðin frá fæðingardegi Jóns Jónssonar frá Ljárskógum. Stefán Gunnar Sveinsson. Morgunblaðið. 28. mars 2014, bls. 18-19.

Erindi

Skjöl


Tengt efni á öðrum vefjum

Kennari, lagahöfundur, skáld og söngvari

Rósa Þorsteinsdóttir uppfærði 30.11.2018