Engilbert Jensen 24.02.1941-

<p>Engilbert Jensen fæddist á Akureyri 24. febrúar 1941, sonur hjónanna Aðalheiðar Friðriksdóttur og Fred Jensen sem var danskur, en Engilbert er einn fjögurra systkina. Eftir að hann lauk barnaskólaprófi árið 1954 á Akureyri fluttist fjölskyldan til Njarðvíkur og ári síðar til Keflavíkur.</p> <p>Árið 1954 hóf Engilbert að syngja opinberlega, þá með Þóri Baldurssyni og fleirum. Það var þó ekki fyrr en árið 1963 sem hann settist við trommusettið í fyrsta sinn, þá sem trymbill Hljómsveitar Guðmundar Ingólfssonar. Haustið eftir eða 1964 hóf hann að starfa með Hljómum og varð frægur á sömu stundu.</p> <p>Þegar Pétur Öslund tók tók sæti hans við settið hjá Hljómum 1965 skrapp Engilbert yfir í Óðmenn en snéri aftur til Hljóma 1967 og hefur síðan verið viðloðandi þá sveit. Árið 1969 Þegar hluti félaga hans sprengdu upp Hljóma og hófu samstarf við valda einstaklinga úr Flowers stofnaði Engilbert hljómsveitina Tilveru ásamt Axel Einarssyni og fleirum en yfirgaf þá sveit þó fljótlega.</p> <p>Árið 1970 kom út fyrsta platan sem skrifuð var á Engilbert sem sólóplata en hún innihélt m.a. lagið Regndropar falla (við hvert fet) auk lagsins Fylgdu mér, sama ár átti Engilbert lag á margfrægri safnplötu sem heitir Poppfestival, en lagið, Heimurinn okkar, vakti þó litla athygli. Engilbert hefur í gegnum tíðina sungið inn á nokkrar slíkar safnplötur og skal þar frægast telja lagið Sextán týrur, sem fyrst kom úr á safnplötunni Eitthvað sætt, á vegum Hljómaútgáfunnar árið 1975 og annað frægt lag má nefna sem hann flytur í félagi höfundarins Jóhanns Helgasonar en þetta er lagið Leyndarmál sem fyrst kom út á safnplötunni Keflavík í Poppskurn.</p> <p>Árið 1975 sendi Engilbert frá sér sína fyrstu og einu LP plötu hingað til sem fékk titilinn Skyggni ágætt. Nokkur laga hennar vöktu athygli eins og Bomm shagga lagga lagga, Lífið og Ég margt þér kenndi. Þetta sama ár var hann á ferð með félögum sínum sem mynduðu Ðe lónlí blú bojs en sú sveit naut fádæma vinsælda.</p> <p>En Engilbert á þó sína heitustu söngsmelli með fyrstu íslensku bítlahljómsveitinni Hljómum og nægir þar að nefna Bláu augun sem var fyrsti smellur Hljóma og sumir segja fyrsta íslenska bítlalagið. Þegar Hljómar voru endurvaktir á nýrri öld var Engilber meða þeim sem fyrr.</p> <p align="right">Bárður Örn Bárðarson – Tónlist.is 2. janúar 2014.</p>

Hópar

Hópur 1 Stöður Frá Til
Haukar Trommuleikari
Hljómar Söngvari og Trommuleikari
Óðmenn Söngvari og Trommuleikari 1966-02 1967-03
Tilvera Trommuleikari 1969-08
Trúbrot Söngvari 1972-04 1973

Tengt efni á öðrum vefjum

Söngvari og trommuleikari
Ekki skráð

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 24.08.2020