Ingólfur Þorsteinsson 14.01.1899-17.08.1980

Ingólfur Þorsteinsson, organisti, Merkilandi, Selfossi.

Á þessu ári hafa látist tveir aldraðir kirkjuorganistar í Árnesprófastsdæmi. Skal þeirra minnst hér í Organistablaðinu nokkrum orðum. Verður það einkum um starf þeirra að tónlistarmálum, en vart þarf að taka fram, að þar var eingöngu um áhuga- og hugsjónastarf að ræða og því lítill hluti ævisögu þeirra. Þessi fáu orð eru enda ekki skrifuð með það í huga að rekja hana til hlítar, heldur til þess að minning þeirra og stutt ágrip af sögu organistans megi varðveitast í þessu riti.

Ingólfur Þorsteinsson var fæddur í Langholti í Hraungerðishreppi 14. febrúar 1899, næst-elstur systkina sinna. Foreldrar hans voru hjónin þar, Helga Einarsdóttir og Þorsteinn Sigurðsson. Að Ingólfi stóðu þekktar ættir um Suðurland. Bernsku sína átti Ingólfur í föðurhúsum, en um tvítugt hafði hann lokið námi í Flensborgarskóla og búnaðarskólanum á Hólum, og um tveggja ára skeið haft á hendi kennslu í heimabyggð sinni. Eitt ár var hann síðan í Danmörku við frekara nám og starf. Heimkominn gerðist hann trúnaðar- og mælingamaður hjá Búnaðarfélagi Íslands.

Árið 1924 kvæntist hann Guðlaugu Brynjólfsdóttur. Foreldrar hennar voru hjónin Guðný Jónsdóttir og Brynjólfur Gíslason í Skildinganesi. Guðlaug var kennaramenntuð og var við kennslustörf áður en hún giftist. Ingólfur og Guðlaug hófu búskap í Langholti, en jafnframt hafði Ingólfur á hendi margvísleg störf fyrir samfélagið. Þegar svo Flóaáveitan tók til starfa og hann vara framkvæmdastjóri hennar, byggðu þau hjónin nýbýli á landi sem þau keyptu af Laugardælum, skammt frá M.B.F. - og nefndu Merkilandi. Þar höfðu þau og nokkurn búskap, lengst af. Aðalstarf Ingólfs var nú við Flóaáveituna og síðar einnig Ræktunarsamband Flóa og Skeiða. Ingólfur var um tíma í hreppsnefnd Selfosshrepps og ýmsum öðrum nefndum og formaður þeirra margra.

Árið 1957 fluttust þau hjónin til Hafnarfjarðar og síðar til Reykjavíkur, þar sem Ingólfur starfaði síðast hjá Búnaðarfél. Íslands. Ingólfur var fjölhæfur gáfumaður, með hagnýta menntun og hlaut því að leggja mörgum góðum málum lið, en það þeirra, sem honum var öðrum fremur kært að eiga hlut að, var söngur og hljóðfærasláttur. Var hann ekki síður þekktur fyrir organleikarastarf sitt, en mörg önnur. Undirstöðumenntun í organleik fékk Ingólfur hjá Einari á Þjótanda, þá 17 ára að aldri. Bárust strax að honum böndin með það að spila við guðsþjónustur í sóknarkirkjunni - að Laugardælum. Auk þess að vera síðan organisti við þá kirkju í nær þrjá áratugi, spilaði hann einnig oft við athafnir í öðrum kirkjum, einkum Hraungerðiskirkju.

Ingólfur hafði yndi af tónlist og söngmaður var hann einnig góður. Gjarnan söng hann við athafnir, jafnframt því sem hann lék á hljóðfærið,- og stundum jafnvel einn. Ingólfur var einn af félögum kirkjukórsins á Selfossi þegar hann var stofnaður og söng bassa. Átti hann einnig á annan hátt mikinn þátt í að efla tónlistarlífið á Selfossi, t.d. við stofnun tónlistarfélagsins.

Þegar kirkjukórasambandið var stofnað 1947, vara Ingólfur einn af stjórnarmönnum þess. Var hann ritari í mörg ár og ber fundargjörðabókin glöggt vitni um snotra rithönd og smekkvísan stíl. Var hann fljótur að skrifa og reit ávallt beint í gjörðabókina. Ingólfur var ætíð reiðubúinn að fórna tíma og vinnu fyrir málefni, sem hann taldi vera til mannbóta, og stuðluðu að farsælla lífi.

Þau Guðlaug og Ingólfur eignuðust fimm börn. Fyrsta barn sitt, Brynjólf, misstu þau tveggja ára. Á lífi eru: Þorsteinn, Elín, Auður og Sverrir. Guðlaug lifir mann sinn og eru henni hér fluttar samúðarkveðjur og þakkir.

Ingólfur Þorsteinsson lést 17. ágúst s.l. og var því á áttugasta og öðru aldursári. Hann var jarðsunginn frá Neskirkju í Reykjavík.

, Blessuð sé minning hans.

Heimild: Organistablaðið

Staðir

Hraungerðiskirkja Organisti 1921-
Laugardælakirkja Organisti 1916-1946

Tengt efni á öðrum vefjum

Hugi Þórðarson uppfærði 12.12.2014