Jón Helgason 30.06.1899-19.01.1986

Jón fæddist á Rauðsgili í Hálsasveit í Borgarfirði 30.6. 1899. Foreldrar hans voru Helgi Sigurðsson, bóndi á Rauðsgili, og Valgerður Jónsdóttir.

Jón lauk stúdentsprófi frá MR 1916, mag.art.-prófi í norrænum fræðum við Hafnarskóla 1923 og doktorsprófi frá sama skóla 1925 með ritgerð um Jón Ólafsson frá Grunna- vík.

Jón var forstöðumaður safns Árna Magnússonar í Höfn 1927-57 og síðan forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar og var prófessor í íslenskri tungu og bókmenntum við Hafnarháskóla 1929-72.

Jón var einn mikilvirkasti og víðkunnasti fræðimaður á sviði íslenskrar tungu og bókmennta á sinni tið. Hann var einkum þekktur fyrir ritstjórn á útgáfu eldri, íslenskra rita en var í raun afar vel að sér í íslenskri tungu og bókmenntum á öllum öldum og sinnti margvíslegum slíkum rannsóknum.

Jón sendi árið 1939 frá sér ljóðabókina Úr landsuðri og komst með henni á bekk fremstu skálda síðustu aldar, fyrir hefðbundið form og fágaðan, meitlaðan og áhrifamikinn stíl. Í ljóðum hans örlar á einmanaleika og söknuði þess er eyðir lífinu erlendis í gamlar skræður innan múrveggja, samanber Lestin brunar:

Þú átt blóðsins heita hraða,
hugarleiftur kvik;
auðlegð mín er útskersblaða
aldagamalt ryk.

Mörg ljóða hans eru hreinar perlur, s.s. Áfangar, Árnasafn, Í vorþeynum, Á Rauðsgili og Lestin brunar.

Jón þýddi auk þess snilldarlega ýmis erlend kvæði, gömul og ný, sem finna má í ritunum Tuttugu erlend kvæði og einu betur og Kver með útlendum kvæðum. Þar má nefna þýðingar á ljóðum eftir franska 15. aldar skáldið Francois Villon, Játvarðskvæði og Tveggja manna tal, eftir A.E. Housman, að ógleymu fyrsta erindinu af Gaudeamus igitur, eða Kætumst meðan kostur er.

Merkir Íslendingar. Morgunblaðið 30. maí 2015, bls. 28.

Erindi

Heimildarmaður/flytjandi í eftirfarandi hljóðritum

5 hljóðrit
Dags Safnmark Efni Heimildarmenn #
28.12.1963 SÁM 92/3158 EF Sjá nú er liðin sumartíð; frásögn um lagið og konuna sem heimildarmaður lærði lagið af Jón Helgason 28313
28.12.1963 SÁM 92/3158 EF Frásögn um lagið og kvæðið; Hér er kvenfólk hér er vín eftir Ólaf Indriðason Jón Helgason 28316
28.12.1963 SÁM 92/3158 EF Fantaskarinn fram sig dró Jón Helgason 28320
xx.11.1965 SÁM 92/3158 EF Sagt frá hljóðritinu með Þorsteini Björnssyni frá Bæ í Borgarfirði Jón Helgason 28324
xx.11.1965 SÁM 92/3158 EF Gunnarsrímur: Gunnar fríður fram með bróður, kveðið með stemmu Gvendar dúllara Jón Helgason 28325

Tengt efni á öðrum vefjum

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 30.06.2015