Páll Torfi Önundarson 30.03.1955-

Páll var í Laugarlækjarskóla, lauk stúdentsprófi af eðlisfræðideild við MH 1975, lauk cand.med et chirprófi frá læknadeild HÍ 1981, sinnti kandidatsstörfum og deildarlækna- störfum við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri og Landspítalann, var í sérnám í lyflækningum við New Britain General Hospital og við University of Connecticut í Bandaríkjunum 1984-87, stundaði sérnám í blóðfræðum við University of Rochester í Rochester í New York 1987-91, lauk bandarísku læknisprófi og lækningaleyfisprófi sem og bandarískum sérfræðingsprófum í lyflækningum og blóðsjúkdómum og er viðurkenndur sérfræðingur á Íslandi í lyflækningum, blóðsjúkdómum og í blóðmeinafræði. Páll sinnti sérfræðingsstörfum við Landspítalann frá 1991, er yfirlæknir í blóðsjúkdómum og blóðmeinafræði við Landspítalann frá 1998 og yfirlæknir í blóðmeinafræði og blóðstorkumeinum frá 2002 við sameinaðan Landspítala. Páll hefur sinnt stundakennslu við læknadeild HÍ 1991-98, var þar dósent frá 1999 og prófessor frá 2009...

Helstu áhugamál Páls á sérfræðisviði hans snúast einkum um blóðstorknunarvandamál og blóðþynningu. Hann er auk þess einn þessara íslensku lækna sem hafa óbilandi tónlistaráhuga og er afbragðs gítarleikari: „Ég lærði á gítar hjá Eiríki Magnússyni og klassískan gítarleik hjá Eyþóri Þorlákssyni og er þeim ævarandi þakklátur fyrir frábæra kennslu. Ég hef alla tíð síðan verið með annan fótinn og báðar hendur í gítarleik í hljómsveitum eins og Gabríellurnar og Grasrex (en sú hljómsveit starfar enn í bílskúr undir nafninu Blúsband Jóns Baldurs), Diabolus in Musica, Sixpack Latino, að ógleymdri Saltfisksveit Villa Valla.

Ég hef tekið þátt í að gefa út tónlist með þessum aðilum undir hörðum aga vina sinna eins og Tómasar R. Einarssonar og Þóris Baldurssonar sem einnig hljóta að teljast kennarar mínir, og Þórir reyndar frá því í barnaskóla.

Ég hef samið þó nokkur lög en þekktust þeirra eru líklega Pétur Jónatansson, Timbúktú, Hinn elsku- legi garðyrkjumaður, 17 °C og Ferrari.

Að öðru leyti snúast áhugamál mín um almennan bókalestur og skógarhögg, en ég hef takmarkaðan áhuga á fótbolta.“ ...

Morgunblaðið. 30. apríl 2015, bls. 22-23, í tilefni 60 ára afmælis Páls Torfa.


Tengt efni á öðrum vefjum

Gítarleikari, lagahöfundur og læknir
Ekki skráð

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 30.03.2015