Áskell Jónsson 05.04.1911-20.09.2002

Áskell stundaði nám við Héraðsskólann á Laugum S-Þing. 1931-1932, og tónlistarnám við Tónlistarskólann í Reykjavík 1940-1942.

Hann starfaði sem söngkennari við Héraðsskólann á Reykjum við Hrútafjörð 1934-1939, Héraðsskólann Laugum 1939-1940, Samvinnuskólann í Reykjavík 1940-1942 og Gagnfræðaskólann á Akureyri 1943-1975.

Hann var stjórnandi Karlakórs Akureyrar 1943-1966, aðstoðarstjórnandi Kantötukórs Akureyrar 1951 og stjórnaði þeim kór er hann hlaut silfurverðlaun á samnorrænu kóramóti í Stokkhólmi sama ár. Auk þess stjórnaði hann Lúðrasveit Akureyrar um stutt skeið og kom fram sem píanóleikari með söngvurum við ýmis tækifæri. Hann var organisti Lögmannshlíðarsóknar 1945-1987. Áskell samdi fjölda söng- og kórverka og hafa mörg laga hans notið vinsælda. Heftið, Við syngjum, með sönglögum f. samkór, einsöng og tvísöng, 19 lög, var gefið út af Kirkjukór Lögmannshlíðarsóknar árið 1988.

Áskell var formaður Kirkjukórasambands Eyjafjarðar frá 1950 um árabil. Söngbók skólanna, kennslubók í tónfræði og nótnalestri fyrir unglingaskóla, sem samin var og gefin út af Áskeli og bróður hans Páli H. Jónssyni árið 1954 var ljós vitnisburður um skilning þeirra bræðra á að bæta tónlistarfræðslu unga fólksins, sem skilaði góðum árangri.

Áskell var heiðraður með hinni íslensku fálkaorðu árið 1983 og gerður heiðursfélagi Karlakórs Akureyrar 1970 og Félags íslenskra orgelleikara árið 1992. Árið 1991 hlaut hann heiðursviðurkenningu fyrir tónlistarstörf í þágu Akureyrarbæjar.

Úr minningargrein í Morgunblaðinu 27. september 2002, bls. 42.

Staðir

Lögmannshlíðarkirkja Organisti 1945-1987

Skjöl


Tengt efni á öðrum vefjum

Ásdís Einarsdóttir uppfærði 7.09.2015