Áskell Jónsson 05.04.1911-20.09.2002

<p>Áskell stundaði nám við Héraðsskólann á Laugum S-Þing. 1931-1932, og tónlistarnám við Tónlistarskólann í Reykjavík 1940-1942.</p> <p>Hann starfaði sem söngkennari við Héraðsskólann á Reykjum við Hrútafjörð 1934-1939, Héraðsskólann Laugum 1939-1940, Samvinnuskólann í Reykjavík 1940-1942 og Gagnfræðaskólann á Akureyri 1943-1975.</p> <p>Hann var stjórnandi Karlakórs Akureyrar 1943-1966, aðstoðarstjórnandi Kantötukórs Akureyrar 1951 og stjórnaði þeim kór er hann hlaut silfurverðlaun á samnorrænu kóramóti í Stokkhólmi sama ár. Auk þess stjórnaði hann Lúðrasveit Akureyrar um stutt skeið og kom fram sem píanóleikari með söngvurum við ýmis tækifæri. Hann var organisti Lögmannshlíðarsóknar 1945-1987. Áskell samdi fjölda söng- og kórverka og hafa mörg laga hans notið vinsælda. Heftið, Við syngjum, með sönglögum f. samkór, einsöng og tvísöng, 19 lög, var gefið út af Kirkjukór Lögmannshlíðarsóknar árið 1988.</p> <p>Áskell var formaður Kirkjukórasambands Eyjafjarðar frá 1950 um árabil. Söngbók skólanna, kennslubók í tónfræði og nótnalestri fyrir unglingaskóla, sem samin var og gefin út af Áskeli og bróður hans Páli H. Jónssyni árið 1954 var ljós vitnisburður um skilning þeirra bræðra á að bæta tónlistarfræðslu unga fólksins, sem skilaði góðum árangri.</p> <p>Áskell var heiðraður með hinni íslensku fálkaorðu árið 1983 og gerður heiðursfélagi Karlakórs Akureyrar 1970 og Félags íslenskra orgelleikara árið 1992. Árið 1991 hlaut hann heiðursviðurkenningu fyrir tónlistarstörf í þágu Akureyrarbæjar.</p> <p align="right">Úr minningargrein í Morgunblaðinu 27. september 2002, bls. 42.</p>

Staðir

Lögmannshlíðarkirkja Organisti 1945-1987

Skjöl


Tengt efni á öðrum vefjum

Ásdís Einarsdóttir uppfærði 7.09.2015