Jóhannes Jósefsson 28.07.1883-05.10.1968

Jóhannes fæddist í Hmarskot á Oddeyri við Eyjafjörð. Hann var sonur Jósefs keyrara þar Jósefssonar og konu hans Kristínar Einarsdóttur sem var ættuðu frá Geirþjófsstöðum og Sandi í Þingeyjarsýslu.

Bróðir Jósefs keyrara var Magnús keyrari, faðir Sigursteins, forstjóra SÍS í Edingborg, föður Magnúsar Magnússonar sjónvarpsmanns, föður Sallýar, fréttamanns á BBC og rithöfundar, og Önnu Snjólaugar, þáttagerðarmanns á BBC.

Jóhannes ólst upp í fátækt og basli í Lundi á Oddeyri, var skikkaður í prentnám en hvarf frá því og lærði verslunarfræði í Noregi. Þar kynntist hann ungmennafélagshugsjóninni og 1906 stofnaði hann og Þórhallur Bjarnason prentari fyrsta ungmennafélagið, Ungmennafélag Akureyrar. Hann beitti sér fyrir stofnun fleiri slíkra félaga og Ungmennafélags Íslands.

Jóhannes varð glímukóngur Íslands 1907 og 1908 og fyrirliði íslenska landsliðsins á Ólympíuleikunum í London 1908. Hann dvaldi síðan erlendis lengst af til 1927 þar sem hann sýndi íslenska glímu, sjálfsvörn og aðrar aflraunir. Er hann sneri aftur heim hóf hann undirbúning að byggingu Hótels Borgar sem átti að verða tilbúin fyrir þúsund ára afmæli Alþingis árið 1930. Það tókst og var hótelið opnað þrátt fyrir hrakspár margra sem töldu þessa hugmynd fífldjarfa. Fyrsta skóflustungan var tekin í byrjun október 1928 og voru veitingasalirnir opnaðir í byrjun árs 1930 og gistiaðstaðan tekin í gagnið í lok maí sama ár. Jóhannes átti og rak Hótel Borg til 1960 er hann settist í helgan stein.

Jóhannes var glæsimenni og heimsborgari, víðlesinn og var hrifinn af fagurbókmenntum sem hann las á mörgum tungumálum.

Kona Jóhannesar var Karólína Amalía Guðlaugsdóttir, fædd 1882, dáin 1969. Foreldar hennar voru Guðlaugur Guðmundsson, bæjarfógeti á Akureyri, og kona hans Oliva Maria frá Skáni í Svíþjóð, fædd Suenson.

Merkir Íslendingar. Mirgunblaðið. 28. júlí 2015, bls. 27

Staðir

Hótel Borg Hótelstjóri 1930-1960

Tengt efni á öðrum vefjum

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 20.01.2016