Gunnar Ringsted 11.11.1952-

<p>Gunnar hóf tónlistarferil sinn með hljómsveitinni Spacemen sem stofnuð var upp úr Bravó árið 1966, þá aðeins þrettán ára gamall. Síðan fylgdu í kjölfarið ýmsar hljómsveitir sem hann lék með, þar á meðal Flakkarar, Óvissa, Ljósbrá og einnig Reykjavíkursveitirnar Náttúra og Roof Tops. Fyrstu skólun sína í jassinum hlaut Gunnar hjá þeim Eydal bræðrum Ingimari og Finni er hann var kallaður til í ýmiskonar jassverkefni s.s. tónleika og einnig hljóðritanir fyrir útvarp. Hann spilaði einnig með hljómsveit Ingimars Eydal á tímabili.</p> <p>Tónlistarnám sitt hóf Gunnar við Tónlistarskóla Akureyrar en fluttist síðar yfir í Tónlistarskóla Reykjavíkur áður en hann hóf nám í tónlistarskóla FÍH, þar var hann í jass-deild en gítarkennari hans var þá Björn Thoroddsen. Seinna nam hann jassgítarleik hjá Jóni Páli Bjarnasyni. Gunnar dvaldi fjögur ár í Danmörku og nam þá jöfnum höndum jassgítarleik hjá Bjarne Roupé og tónlistarfræði við Kaupmannahafnarháskóla. Hann lék með ýmsum jasstónlistarmönnum á meðan hann stundaði tónlistarnám í Danmörku, þar á meðal var trommuleikarinn Alex Riel og bassaleikarinn Mads Vinding en þeir eru í fremstu röð þarlendra jasshljóðfæraleikara. Á Danmerkurárunum spilaði hann einnig með hljómsveit Hauks Mortens sem þá starfaði tímabundið í Danmörku. Síðustu ár hefur Gunnar spilað jass með ýmsum jasssveitum bæði á Akureyri og í Reykjavík og einnig í Borgarfirðinum. Meðal annarra hafa meðspilarar hans verið Björn Thoroddsen, Jón Rafnsson, Benedikt Brynleifsson, Kristian Blak, Dan Cassidy, Kristján Guðmundsson, Richard Korn og Gunnar Gunnarsson svo einhverjir séu nefndir.</p> <p>Gunnar hefur starfað sem tónlistarkennari við Tónlistarskóla Borgarfjarðar frá árinu 1978 til dagsins í dag ef frá eru skilin 4 ár í Danmörku og lengst af í fullu starfi. Hann kenndi einnig við Tónlistarskólann á Akranesi í tvö ár eftir heimkomuna frá Danmörku og hefur verið þar í hlutastarfi á vorönn 2010.</p> <p>Gunnar spilar um þessar mundir í hljómsveitinni Bravó sem var upphaflega stofnuð 1964 en endurvakin sumarið 2009. Nýjasta hljómsveitin sem Gunnar spilar með í er Bandið Bakvið Eyrað (BBE) en þau hafa spilað mikið í Landnámssetrinu í Borgarnesi og víðar við góðan orðstír.</p> <p align="right">Af isnord.is 12. febrúar 2014.</p>

Hópar

Hópur 1 Stöður Frá Til
Roof Tops Gítarleikari 1974-02 1974-12

Tengt efni á öðrum vefjum

Gítarleikari og tónlistarkennari
Ekki skráð
Ekki skráð

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 2.10.2015