Tómas Þorvaldsson 26.12.1919-02.12.2008
<p>... Tómas kynntist snemma sjómennskunni. Hann réð sig fyrst sem hálfdrætting til sjós á „Járngerðarstaðaskipinu“ sem svo var nefnt í daglegu tali, en hét reyndar Björgvin GK 35, opinn bátur gerður út frá Járngerðarstöðum í Grindavík. Þetta var árið 1934. Næstu árin stundaði hann sjóinn á ýmsum skipum og bátum sem veiddu og lögðu upp afla allt í kringum landið.</p>
<p>Á stríðsárunum stjórnaði hann vinnuflokkum sem unnu við að byggja upp flugvelli og braggahverfi fyrir breska hermenn. Eftir stríðið fór Tómas aftur til sjós. Árið 1948 gerðist hann bílstjóri og verkstjóri hjá Hraðfrystihúsi Grindavíkur.</p>
<p>Tómas var virkur í félagsmálum bæði til sjós og lands. Hann var í stjórn Verkalýðsfélags Grindavíkur í nokkur ár. Tómas var í fyrstu stjórn Íþróttafélags Grindavíkur og formaður félagsins 1948 til 1963. Tómas var fyrsti formaður Björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í Grindavík 1947 og gegndi því starfi til ársins 1977. Þá tók hann við formennsku í Slysavarnadeildinni Þorbirni í Grindavík og sinnti henni til ársins 1987.</p>
<p>Tómas stofnaði ásamt þremur félögum sínum útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækið Þorbjörn hf. í Grindavík árið 1953 og var framkvæmdastjóri þess fram til ársins 1985, Tómas var í stjórn Þorbjarnar til ársins 2000 eða í 47 ár.</p>
<p>Tómas var mjög virkur í öllu félagsstarfi í sjávarútvegi allan sinn starfsaldur. Hann var í stjórn Sölusambands íslenskra fiskframleiðenda frá 1959, fyrstu tvö árin sem varaformaður og síðan stjórnarformaður til ársins 1981. Hann sat í stjórnum Landssambands íslenskra útvegsmanna, Fiskifélagsins, Fiskveiðasjóðs og Verðjöfnunarsjóðs. Hann var varaformaður Viðlagasjóðs þegar hann var stofnaður í Vestmannaeyjagosinu 1973. Þegar hafist var handa við byggingu heimilis fyrir aldraða í Grindavík, Víðihlíð, var hann í byggingarnefnd heimilisins. Eftir lát konu sinnar, Huldu, flutti Tómas í Víðihlíð og undi hag sínum vel þar...</p>
<p align="right">Úr minningargrein í Morgunblaðinu 13. desember 2008, bls. 44.</p>
Heimildarmaður/flytjandi í eftirfarandi hljóðritum
2 hljóðrit
Dags | Safnmark | Efni | Heimildarmenn | # |
---|---|---|---|---|
14.06.1992 | SÁM 93/3637 EF | Sjómannadagurinn í Grindavík | Tómas Þorvaldsson | 37674 |
14.06.1992 | SÁM 93/3638 EF | Fyrsti dekkbáturinn í Grindavík og róðrar á opnum bátum; starf föður Siguróla; breytingar á sjósókn | Tómas Þorvaldsson og Siguróli Geirsson | 37677 |
Viðtöl
Tengt efni á öðrum vefjum
Uppfært 28.05.2015