Björn Steinar Sólbergsson 27.09.1961-

Björn Steinar er organisti við Hallgrímskirkju í Reykjavík og tekur virkan þátt í blómlegu listastarfi kirkjunnar. Hann er einnig skólastjóri við Tónskóla Þjóðkirkjunnar þar sem hann kennir jafnframt orgelleik.

Björn Steinar stundaði tónlistarnám við Tónlistarskólann á Akranesi og í Tónskóla þjóðkirkjunnar í Reykjavík. Meðal kennara hans þar voru Haukur Guðlaugsson og Fríða Lárusdóttir. Framhaldsnám stundaði hann á Ítalíu hjá James E. Göettsche og í Frakklandi við Conservatoire National de Region de Rueil Malmaison hjá Susan Landale þar sem hann útskrifaðist með einleikarapróf í orgelleik (Prix de virtuosité) árið 1986. Hann starfaði sem organisti við Akureyrarkirkju í 20 ár þar sem hann vann markvisst að uppbyggingu tónlistarstarfs við kirkjuna.

Björn Steinar hefur haldið fjölda einleikstónleika hér heima og erlendis og leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Kammerhljómsveit Akureyrar, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og The Cleveland Institute of Music Orchestra. Hann hefur hljóðritað fyrir útvarp og sjónvarp og á geislaplötur, m.a. öll orgelverk Páls Ísólfssonar. Björn Steinar hlaut Menningarverðlaun DV 1999, Íslensku bjartsýnisverðlaunin 2001 og var valinn bæjarlistamaður Akureyrar 2002. Á þessu ári kemur Björn Steinar fram á tónleikum á Íslandi, í Þýskalandi, Finnlandi og á Ítalíu.

Af vef Kirkjulistahátíðar 2013.


Tengt efni á öðrum vefjum

Organisti, orgelkennari og skólastjóri
Ekki skráð
Ekki skráð

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 14.08.2014