Árni Hjörvar Árnason 22.03.1984-

Árni Hjörvar fæddist í Reykjavík, ólst upp í Kópavogi fyrstu árin en í Grafarvoginum frá sjö ára aldri. Árni var í Hamraskóla í Grafarvogi og síðan Engjaskóla, stundaði nám við Menntaskólann við Sund og lauk þaðan stúdentsprófi 2004 og stundaði nám í félagsfræði skamma hríð við Háskóla Íslands.

Árni stundaði nám við Tónlistarskóla FÍH og útskrifaðist þaðan eftir þriggja ára nám. Hann flutti til Bretlands 2007 og hóf þar tónlistarnám við Institute of Contemporary Music Performance. En þar stoppaði hann stutt við, enda hefur hann sagt í viðtali við Morgunblaðið: „Ég sótti um tónlistarháskólann til þess að réttlæta ferðalagið.“

Árni vann við frístundastörf fyrir unglinga í Grafarvogi, í félagsmiðstöðvunum Engyn við Engjaskóla og Púgyn við Víkurskóla og Korpuskóla á árunum 2004-2006.

Árni hefur leikið á bassa í hljómsveitum frá því hann var í grunnskóla og tók m.a. þátt í Músíktilraunum. Meðal helstu hljómsveita sem hann lék með áður en hann flutti til Bretlands eru hljómsveitirnar The Troopers, Dice, Future Future og Kimono.

Skömmu eftir að Árni flutti til Bretlands kynntist hann Justin Young, breskum söngvara og gítarleikara, sem þá lék og söng ýmist með hljómsveitum eða einn á báti. Árni kynntist Pete Robertson trommara á öðrum vettvangi en þeir léku saman í nokkrum hljómsveitum um skeið. Justin Young og Freddie Cowan gítarleikari höfðu síðan samband við Árna í því skyni að stofna hljómsveit og Árni benti á Pete. Þannig varð til hljómsveitin Vaccines, árið 2009.

Aðspurður um tónlistarstefnu segir Árni hljómsveitina leika klassíkt og tært Rock and rol með poppívafi frá þeim sjálfum en að öðru leyti hefur hann ekki viljað setja tónlist þeirra á neinn sérstakan bás. Þeir reyni fyrst og fremst að leika eigin tónlist og vera hressir og skemmtilegir. Að öðru leyti tali tónlist þeirra fyrir sig sjálf.

Hljómsveitin sendi frá sér plötuna What Did You Expect From The Vaccines? í marsmánuði 2011. Platan lenti í fjórða sæti á vinsældalistum Bretlands og hljómsveitin lenti í þriðja sæti á vinsældalista breska ríkisútvarpsins BBC yfir heitustu hljómsveitir ársins 2011. Þá sendi hljómsveitin frá sér smáskífuna Wreckin’ Bar (Ra Ra Ra)/Blow it Up, í apríl 2011. Vaccines var svo tilnefnd til Brit-tónlistarverðlaunanna í flokknum Bjartasta vonin árið 2012.

The Vaccines gáfu síðan út plötuna The Vaccines Come of Age í október 2012 og skömmu áður en hljómsveitin kom hingað til lands til að leika á Airwaves 2012 var platan á toppi breska plötulistans. Hljómsveitin var svo tilnefnd til Brit-tónlistarverðlaunanna 2013 sem besta tónleikasveitin. Í sama flokki voru einnig tilnefndar hljómsveitirnar The Rolling Stones, Coldplay, Muse og Mumford & Sons.

Hljómsveitin Vaccines hefur verið á nánast stöðugu tónleikaferðalagi um allan heim frá sumri 2011. Hún hefur leikið með mörgum frægustu popphljómsveitum samtímans og á allflestum stærstu tónlistarhátíðum Evrópu og Bandaríkjanna ...

Árni Hjörvar – frændgarður og fjölskylda. Morgunblaðið 22. mars 2014, bls. 42-43.

Skjöl


Tengt efni á öðrum vefjum

Bassaleikari
Ekki skráð

Rósa Þorsteinsdóttir uppfærði 29.04.2014