Steingrímur M. Sigfússon 12.06.1919-20.04.1976

<p>Steingrímur Matthías Sigfússon fæddist 12. júní 1919 á Stóru-Hvalsá í Hrútafirði. Foreldrar hans vour Kristín Gróa Guðmundsdóttir og Sigfús Sigfússon.</p> <p>Steingrímur fékk sína fyrstu tónlistarkennslu hjá Ragnhildi Finnsdóttur, frá Kjörseyri. Á unglingsárum fór Steingrímur á Héraðsskólann á Reykjum í Hrútafirði. Þar kenndi Áskell Jónsson honum tónfræði og hljóðfæraleik. Ef Áskell þurfti að fara frá skólanum setti hann Steingrím sem kennara á meðan.</p> <p>Eftir nám í Reykhólaskóla fór Steingrímur til Reykjavíkur og var einn vetur hjá Aage R. Lorange. Eftir námið hjá Aage réði Steingrímur sig sem organista til Patreksfjarðar að áeggjan sóknarprestsins séra Einars Sturlaugssonar. Því fylgdi einnig organistastarf á Stóra-Laugardal í Tálknafirði. Var hann organisti einnig í Sauðlauksdal þar sem séra Grímur Grímsson var prestur.</p> <p>Næstu árin var Steingrímur á Patreksfirði og nam þar húsamálun og var einnig ritstjóri héraðsfréttablaðsins Patreks á Patreksfirði, jafnframt því að vera organisti.</p> <p>Steingrímur skrifaði einnig spennusögurnar <i>Týndi hellirinn</i>, <i>Flóttin frá París</i> og <i>Rafmagnsmorðið</i> ásamt nokkrum smásögum. Sögurnar nutu mikilla vinsælda á þessum árum og voru ófáanlegar í áratugi eða þar til bróðursonur hans, Finnur Eiríksson, gaf þær út aftur árið 2005 ásamt bókinni <i>Átta sögur</i> sem eru smásögur eftir Steingrím en þær höfðu ekki verið gefnar út áður í einni heid. Þessar sögur skrifaðir Steingrímur undir skáldanafninu „Valur Vestan“. Einnig skrifaði Steingrímur barnabókina <i>Blíð varstu bernskutíð</i> og rifjaði þar upp bernsku sína í Hrútafirði á skemmtilegan máta.</p> <p>Eiginkona Steingríms var Guðrún Þórarinsdóttir. Eignuðust þau átta börn, en tvö létust nýfædd. Guðrún lést um aldur fram 1959.</p> <p>Nokkru eftir lát Guðrúnar tók Steingrímur sig upp og flutti frá Patreksfirði til Reykjavíkur og var þar nokkurn tíma sem og í Hafnarfirði. Nam hann á þessum árum hjá Páli Ísólfssyni og Páli Kr. Pálssyni tónfræði og útsetningar. Hann var síðar organisti á Fáskrúðsfirði og svo síðar skólastjóri Tónlistarskóla Húsavíkur og var einnig organisti við Húsavíkurkirkju.</p> <p>Eftir Steingrím liggur fjöldi af lögum og tónverkum sem hann samdi á ferli sínum. Mörg þessara laga eru þjóðkunn og eru leikin og sungin við ýmis tækifæri. Einnig samdi og útsetti Steingrímur marga sálma og kirkjutónlist sem mikið er spiluð og sungin. Hann samdi og útsetti fjölmörg söng- og kórlög og hafa margir kórar flutt lög hans og texta. Þekkt eru einnig nokkur danslög og unnu einhver þeirra til verðlauna í danslagakeppni SKT.</p> <p>Steingrímur lést 20. apríl 1976. Var hann jarðsunginn í Prestbakkakirkju í Hrútafirði.</p> <p align="right">Úr fjölrituðu nótnahefti með lögum Steingríms, útgefnu af Haraldi Sigfússyni 2005.</p>

Staðir

Patreksfjarðarkirkja Organisti -1961
Húsavíkurkirkja Organisti 1974-

Skjöl


Tengt efni á öðrum vefjum

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 5.09.2019