Magnús K. Guðnason (Magnús Karvel Guðnason) 23.12.1893-13.08.1974

<p>Foreldrar Magnúsar voru Guðni Jónsson og kona hans, Kristín Pálsdóttir. Þau fluttu með börnum sínum frá Alviðru, skammt frá Núpi í Dýrafirði að smábýlinu Kambi við Dýrafjörð árið 1895, en Kambur var smábýli eða þurrabúð í landi Bakka (Neðri-Hjarðardals) í sömu sveit. Þegar Magnús var á 8. ári, 1901, var honum komið í fóstur til Guðrúnar föðursystur sinnar og Auðuns Jónssonar í Ytri-Lambadal. Systkini Magnúsar voru Jóna Ólöf sem lést rúmlega þrítug, Bjarni, smiður, starfaði lengi hjá Vegagerðinni, Páll Júlíus, síðast skósmiður á Hellissandi, lést 25 ára gamall, Soffía Anna sem lést á barnsaldri og Þuríður, lengst ljósmóðir á Akranesi. Foreldrar Magnúsar fluttust til Reykjavíkur 1920, Kristín lést 1927 og Guðni 1937.</p> <p>Magnús hóf nám í bátasmíði á Þingeyri en veiktist af berklum og lauk ekki náminu. Hann var alla ævi fremur heilsuveill af þeim sökum, vann þó við bátasmíði framan af. Stefán Halldórsson, sem stundaði útgerð ásamt bróður sínum, sagði í blaðaviðtali: „Fengum við nýjan bát 1925, sem vinur okkar, Magnús Guðnason, Dýrfirðingur, smíðaði; það var listasmíð.“ (Þjóðviljinn 12. júní 1963, bls. 5) Síðar á ævinni fékkst Magnús við ýmiss konar smíði sér til framfæris, smíðaði meðal annars leikföng á 4. áratugnum þegar lítið var um innflutning þeirra og hann smíðaði fiðlur og gítara sem talsverð eftirspurn var eftir. En uppfinningar áttu hug hans allan þegar frá unga aldri.</p> <p>Magnús fór til Reykjavíkur 1918 og bjó þar að mestu eftir það. Óhætt er að segja að hann hafi ekki borist mikið á. Hann var alla tíð einhleypur, heimili hans var jafnan á verkstæðinu þar sem hann vann að smíðum sínum. Hann var sinnulítill um eigin hag, á tímabili lá við að hann sylti. Í sendibréfum og dagbókarslitrum, sem varðveist hafa, lýsir hann fátæktarbasli, heilsuleysi, hús-næðisleysi, auk glímunnar við uppfinningarnar. Nokkra mánuði 1932 hélt hann til um borð í skipsflaki sem lá strandað inni hjá Kleppi og í dagbók lýsir hann ömurlegri vist þar. Um skeið var hann í kjallara Uppsala við Aðalstræti, á Innra-Sæbóli í Kópavogi og í kjallara að Tjarnargötu 10 svo að helstu staðir séu nefndir. Árið 1961 fluttist Magnús að Litlu-Grund í Blesugróf og þar fór vel um hann í fallegu umhverfi Elliðaárdals. Hann lést 13. ágúst 1974...</p> <p>... Einn af stuðningsmönnum Magnúsar var dr. Páll Ísólfsson, tónskáld og organisti. Fyrir hans atbeina fékk Magnús fyrst styrk frá alþingi árið 1934, eitt þúsund krónur. Árið 1938 spjallaði Páll í útvarpið um Magnús og leikin voru lög sem Páll hafði leikið inn á hljómplötur á tvö hljóðfæri sem Magnús fann upp og nefndi strokhörpu og kliðhörpu . Hann hafði lengi unnið við að þróa hugmyndirnar að þeim hljóðfærum og hélt því áfram í áratugi. Má líta svo á að strokharpan hafi verið sú uppfinning sem Magnús gat sér mest orð fyrir. ..</p> <p align="right">Úr <i>Magnús Guðnason og uppfinningar hans</i> eftir Pál Bjarnason</p>

Skjöl


Tengt efni á öðrum vefjum

Bjarki Sveinbjörnsson uppfærði 25.10.2019