Valborg Einarsson (Valborg Hellemann) 02.05.1883-24.07.1969

<p>Frú Valborg Einarsson, ekkja próf. Sigfúsar Einarssonar dómkirkjuorganleikara og tónskalds, andaðist i Reykjavik 24. júlí síðastl. Valborg Inger Elisabeth var dönsk að ætt, og var faðir hennar Alfred Hellemann, verkfræðingur. Hún var fædd í Frederikshavn 2. maí 1883. Snemma komu í ljós miklir tónlistarhæfileikar hjá henni og lærði hún píanóleik á barnsaldri. – Framhaldsnám í píanóleik stundaði hún hjá Albert Orth, sem var kennari við kgl. tónlistarháskólann i Kauph. og organisti við Heilagsanda kirkjuna, en hann hafði numið hjá hinum fræga norska píanóleikara Edmund Neupert. Söngnám stundaði hún hjá Sophie Keller, en faðir hennar var tónskáldið Henrik Rung. Arið 1906 giftist hún Sigfúsi Einarssyni. Höfðu þau þá farið í tónleikaferð um Noreg og fengið góða dóma. Einnig höfðu þau haldið tónleika víðsvegar hér á landi. Eftir að þau settust að í Reykjavík kenndi hún bæði söng og píanóleik og kom einnig oft fram á tónleikum bæði sem einsóngvari og pianóleikari, lék hún t. d. undir hjá mörgum listamönnum íslenzkum og erlendum, sem hér voru á ferð, og þótti mjög snjall undirleikari. Var hún því um langt árabil í hópi þeirra, sem settu svip á tónlistarlíf höfuðborgarinnar. Frú Valborg missti mann sinn 10. mai 1939. Síðustu árin bjó hún í Kaupmannahöfn, en börn hennar eru búsett í Danmörku, Elsa söngkona í Kaupmh. en Einar fiðluleikari í Árósum.</p> <p align="right">Minningargrein. Organistablaðið. 1. nóvember 1969, bls. 4.</p> <blockquote>Enn er þá ónefnd ein kona sem átti eftir að verða atkvæðamikil í íslensku tónlistarlffi, bæði sem söngkona og píanóleikari, þótt ekki væri hún íslendingur að ætterni. Þetta var Valborg, fædd Hellemann, sem varð kona Sigfúsar Einarssonar og var eftir það nefnd frú Valborg Einarsson. Hún var fædd í Kaupmannahöfn, dóttir Alfreds Hellemanns verkfræðings. Hún kemur fyrst fram á tónleikum í Reykjavík, svo að séð verði 1904, en sest hér að ásamt Sigfúsi 1906, og er eftir það mjög virk í tónlistarlífinu. Eftir andlát Sigfúsar 1939 fluttist frú Valborg aftur til Danmerkur. Börn þeirra Sigúsar voru Einar fiðluleikari, sem lengst var konsertmeistari í Árósum og Elsa Sigfúss söngkona.</blockquote> <p align="right">Íslenzkar konur í tónlist. Jón Þórarinsson. Lesbók Morgunblaðsins 24. desember 1986, bls. 4.</p> <p>Í <a href="http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3543315">grein eftir Theódór Árnasona í Vísi 19. apríl 1942 (bls. 4)</a> er fullyrt að einungis Sigríður Einarsson, Valborg Einarsson og frk. Kristrún Hallgrímsson hafi haft það góð tök á píanólek í Reykjavík um 1910 að þær hafi getað tekið þátt í samleik…</p> <p align="right">Jón Hrólfur 20. nóvember 2013.</p>

Tengt efni á öðrum vefjum

Hugi Þórðarson uppfærði 12.12.2014