Magnús Ólafsson (Marino Magnus Olafsson) 23.10.1920-24.04.2015

<p>Magnus Olafson fæddist í foreldrahúsum í Gardar, Norður-Dakóta 23. október 1920, sonur hjónanna Jóns Kristinsonar Olafson og Kristínar Hermannsdóttur Hermann.</p> <p>Afi Magnusar í föðurætt var Kristinn Ólafsson, f. 1843 á Merkigili í Eyjafirði. Amma Magnusar í föðurætt var Katrín Guðríður Ólafsdóttir, f. 1833 á Sveinsstöðum í Neshreppi utan Ennis á Snæfellsnesi. Katrín og Kristinn kynntust í Húnavatnssýslu, giftu sig árið 1867 og fluttu svo á bernskuslóðir Kristins í Eyjafirði. Þau tóku þá ákvörðun 1873 að flytjast til Vesturheims og áttu þá þegar fjögur börn, Aðalbjörgu, Ólaf, Pétur og Kristgerði. Katrín var þunguð og ól Jón, föður Magnusar, 26. ágúst 1873, í járnbrautarlestinni á leið frá Quebec til áfangastaðar þeirra í Milwaukee. Síðar bættust tvö börn í hópinn, þau Stefanía, f. 1875 í Milwaukee, og Kristinn, f. í Gardar 1880.</p> <p>Afi Magnusar í móðurætt var Hermann Hjálmarsson, f. 1847 á Reykjum í Mjóafirði. Amma Magnusar í móðurætt var Magnea Pétursdóttir Gudjohnsen, f. 1846 í Reykjavík. Þau Hermann og Magnea giftust og settust að á Raufarhöfn þar sem frumburðurinn Kristín, móðir Magnusar, fæddist 5. febrúar 1877. Hermann og Magnea eignuðust sex börn að auki, Hjálmar og Pétur (tvíburar), Maríu, Theódóru, Þórhall og Halldóru. Þau fluttust til Vesturheims 1890 og fóru beint til Gardar þar sem þau hófu búskap. Árið 1899 flutti fjölskyldan til Edinburg þar sem Hermann hóf viðskipti með vélar og tól fyrir landbúnað. Árið 1910 fluttust Hermann og Magnea til Arborg í Manitoba, Kanada. Þau höfðu þá tekið upp ættarnafnið Hermann.</p> <p>Foreldrar Magnusar, Jón Kristinsson Olafson og Kristín Hermann, giftust í Winnipeg 1914. Hann var þá 41 árs og hún 37 ára. JK, eins og hann var kallaður, tók þá við búskapnum á Olafson farm við Gardar og eignuðust þau Kristín þrjá syni, Jón Hermann, f. 1916, Brand Theodor, f. 1918, og yngstur var Magnus, f. 1920.</p> <p>Í bók sinni „A Knight in Dakota“, sem kom út fyrir tæpum tveimur árum, lýsir Magnus góðu atlæti í æsku. Árið 1943 kynntist hann Lois Flanagan og gengu þau í hjónaband 1945. Þau eignuðust þrjú börn, Larry Rae, f. 1946, Robert Magnus, f. 1949, og Jean Patriciu, f. 1952. Lois andaðist árið 1984, aðeins 57 ára að aldri, og yngsta barn þeirra hjóna, Jean, lést 2013.</p> <p>Magnus var sæmdur riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu 1999 fyrir framlag sitt til varðveislu íslenskrar menningar og sögu í Norður-Dakóta. Hann var útnefndur heiðursfélagi Þjóðræknisfélags Íslendinga 2005.</p> <p align="right">Úr minningargrein í Morgunblaðinu 29. apríl 2015, bls. 18.</p>

Skjöl


Tengt efni á öðrum vefjum

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 29.04.2015