Árni Elvar 05.06.1928-05.04.2009

<blockquote>... Ég er fæddur á Akureyri árið 1928. Faðir minn er Benedikt Elfar Arnason og er frá Akureyri. Móðir mín er Elísabet Þórunn Kristjánsdóttir frá Sauðárkróki, dóttir Kristjáns Gíslasonar, stórkaupmanns á Sauðárkróki, og þar elst ég upp, ungur drengur, frá sjö ára aldri. Ég er þarna hjá stórkaupmannsfjölskyldunni í fína húsinu. Þar var píanó og þar komu listamenn. Stefán Islandi byrjaði þar sinn feril, móðir mín spilaði með honum. Pabbi var hámenntaður maður og fór utan til söngnáms, til Þýskalands 1921-22 og er erlendis mörg ár. Hann var prestmenntaður en tók aldrei próf, fékk köllun að gerast söngvari. <br><br> Síðan liggur leiðin suður árið 1930 og þau ætla að hasla sér völl í tónlist. Hún var píanóleikari, hafði lært í Kaupmannahöfn. Það var nú ekki svo gott að hægt væri að lifa af tónlistinni í þá daga og verður líklega aldrei. Hann var eitthvað við söngkennslu og hún í píanókennslu þannig að á heimilinu glymur alltaf klassísk tónlist sem ég er alinn upp við. Þetta tekur sinn endi hjá honum því hann verður að framfleyta fjölskyldunni og gerist leikfangasmiður, handlaginn eins og allir sveitamenn. Hann hafði ekkert lært til þess en setti upp verkstæði og sá þessari þjóð fyrir leikföngum í fjöldamörg ár. <br><br> Foreldar mínir settu upp hljóðfæraverslun á Laugavegi 19. Það sagði mér maður skemmtilega sögu. Pabbi hafði leitt músík í gegnum grammifónshátalara út á götuna. Það er líklega fyrsta músíkin sem hljómar yfir borgina úr hátölurum til að auglýsa vöruna. Æskuheimili mitt er þarna við Laugaveg 19 til að byrja með og einnig eitthvað um tíma á Fjölnisveginum. Ég fór í barnaskóla eins og lög gera ráð fyrir og síðan í gagnfræðaskóla og loks í menntaskóla. Fór í það sem kallað var undirbúningsdeild menntaskóla hjá Einari Magnússyni. Það var sérstök deild sem opnuð var í gamla daga. Þá tók maður gagnfræðapróf eftir tvo vetur með þessari undirbúningsdeild Einars, fór svo í Menntaskólann í Reykjavík í fjórða bekk og þar gafst ég upp á miðjum vetri og hljóp í jazzinn. Foreldrar mínir voru auðvitað ekkert sérlega hrifnir. Það þótti svo sem ekkert sniðugt... </blockquote> <p align="right">Þetta voru skemmtilegir tímar. Morgunblaðið. 10. desember 1995, bls. B6 - sjá vísun hér neðar á síðunni</p>

Hópar

Hópur 1 Stöður Frá Til
Hljómsveit Björns R. Einarssonar Píanóleikari 1947-12 1951-03
Hljómsveit Gunnars Ormslev Píanóleikari
Hljómsveit Ragnars Bjarnasonar Píanóleikari 1989
Hljómsveit Svavars Gests
KK-sextett Píanóleikari 1955-06/08
Stórsveit Ríkisútvarpsins Básúnuleikari

Skjöl


Tengt efni á öðrum vefjum

Básúnuleikari , myndlistarmaður , píanóleikari , teiknari og tónlistarmaður

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 27.06.2017