Hallbjörg Bjarnadóttir 11.04.1915-28.09.1997

<p>Hallbjörg fæddist í Hjallabúð á Snæfellsnesi en ólst upp á Akranesi. Foreldrar hennar voru Bjarni Hallsteinsson og Geirþrúður Kristjánsdóttir, lengi búsett á Akranesi.</p> <p>Hallbjörg hafði sérstaka söngrödd og feikilega vítt raddsvið. Hún fór fljótlega að syngja opinberlega í Kaupmannahöfn, m.a. á Ríó Bar þar í borg, söng jöfnum höndum lög úr revíum, dægurlög og djass, auk þess sem hún var góður uppistandari og eftirherma. Þetta varð upphafið að tónleikaferli víða um Norðurlönd og í Bretlandi þar sem hún söng m.a. í Royal Albert Hall. Þá söng hún í Frakklandi, Þýskalandi og víðar.</p> <p>Hallbjörg hlaut oft lofsamlega dóma fyrir tónleika sína og hvarvetna dáðust menn að hinu mikla raddsviði hennar. Þá vakti hún athygli fyrir frjálslegt fas, djarflegan klæðaburð og örugga framkomu.</p> <p>Hallbjörg kom oft til Íslands og hélt þá umtalaðar og vel sóttar söngvaskemmtanir í Gamla bíói. Hún var fyrst íslenskra söngkvenna til að syngja djass hér á landi og var þá ekki laust við að ýmsum þætti söngkonan gefa frá sér ókvenleg hljóð. Þá var framkoma hennar og klæðaburður ekki alveg í takt við tíðarandann hér heima. En Hallbjörg var heimskona sem lét ekki segja sér fyrir verkum. Reyndar var hún langt á undan öðrum íslenskum djassflytjendum að færa þjóðleg, íslensk lög og ljóð í djassbúning og því þjóðlegri en margir aðrir.</p> <p>Meðal þekktustu laga hennar eru Vorvísu við kvæði Jóns Thoroddsens, Björt mey og hrein við kvæði Stefáns Ólafssonar frá Vallanesi og Ennþá man ég hvar, eftir Karl Normann og Loft Guðmundsson.</p> <p>Hallbjörg bjó lengi í Danmörku og Bandaríkjunum en flutti heim 1992 og bjó hér til dauðadags.</p> <p align="right">Merkir Íslendingar. Morgunblaðið. 11. apríl 2017, bls. 27</p>

Tengt efni á öðrum vefjum

Söngkona

Rósa Þorsteinsdóttir uppfærði 12.12.2017