Jón Sigurðsson (Jón bassi) 14.03.1932-30.04.2007

Jón nam bassaleik og tónfræði í Tónlistarskólanum í Reykjavík. Hann réðst til Sinfóníuhljómsveitar Íslands á fyrsta starfsári hennar 1951 og varð síðar fyrsti bassaleikari. Sinfóníuhljómsveitinni helgaði hann allan starfsaldur sinn og gegndi síðast stöðu nótnavarðar. Samhliða hóf Jón snemma að leika djass og dægurtónlist. M.a. var hann bassaleikari og aðalútsetjari KK sextettsins og vann á þeim tíma til verðlauna á evrópskum djasshátíðum. Jón samdi tónlistina við kvikmyndina 79 af stöðinni og var tónlistarstjóri nokkurra söngleikjauppfærslna í Þjóðleikhúsinu, m.a. My fair lady. Hann stofnaði eigin hljómsveit, Sextett Jóns Sigurðssonar, er starfaði um nokkurra ára skeið og lék með hljómsveit Ragnars Bjarnasonar. Hann var um áratugaskeið helsti útsetjari SG hljómplatna og stýrði gerð tuga hljómplatna á hennar vegum með þekktustu dægurlagasöngvurum landsins, s.s. Ellý Vilhjálms og Ragnari Bjarnasyni. Þá útsetti hann fyrir fjölda annarra lagasmiða og flytjenda, s.s. Sigfús Halldórsson, Ómar Ragnarsson, Gylfa Þ. Gíslason, Þrjú á palli, Hallbjörn Hjartarson og marga fleiri.

Jón var einn af stofnendum STEF og gegndi trúnaðarstörfum fyrir Félag íslenskra hljómlistarmanna. Hann kenndi við Tónlistarskólann í Reykjavík og við Tónlistarskóla FÍH. Ein þekktasta útsetning Jóns er við lagið Vegir liggja til allra átta, er var kosið dægurlag 20. aldarinnar af hlustendum Ríkisútvarpsins við síðustu aldamót.

Úr Minningargrein í Morgunblaðinu 7. maí 2007, bls. 32.

Hópar

Hópur 1 Stöður Frá Til
Hljómsveit Björns R. Einarssonar Bassaleikari 1950-10 1951-10
Kammersveit Reykjavíkur Kontrabassaleikari 1974
KK-sextett Bassaleikari 1955 1961-12-31

Tengt efni á öðrum vefjum

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 10.09.2015