Guðrún Anna Kristinsdóttir (Didda) 23.11.1930-10.11.2012

<p>Guðrún hóf píanónám sitt hjá móður sinni fimm eða sex ára gömul en reglulegt nám hóf hún tíu ára gömul hjá Jórunni Norðmann á Akureyri. Síðan fór hún í Tónlistarskólann í Reykjavík og var nemandi Árna Kristjánssonar í tvo vetur. Eftir það fór hún í Det kgl. Musikkonservatorium í Kaupmannahöfn og var þar í fimm vetur og brautskráðist þaðan með diplómagráðu. Jafnframt því námi fór hún í einkatíma til Haraldar Sigurðssonar prófessors. Guðrún var árin 1955-1957 í Vínarborg í einkatímum hjá prófessor Bruno Seidlhofer.</p> <p>Á Íslandi lék hún tvisvar einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Í mars 1958 lék hún píanókonsert nr. 5 eftir Beethoven (Keisarakonsertinn) og síðara skiptið píanókonsert í D-moll eftir Bach. Guðrún hélt tónleika víða um land og einnig víða í Danmörku. Árið 1960 lék hún með Tívolíhljómsveitinni í Kaupmannahöfn og sama ár lék hún einleik með Sinfóníuhljómsveit í Álaborg. Veturinn 1962 var hún í London þar sem hún var í undirleikaranámi.</p> <p>Á dvalarárum sínum í Reykjavík kenndi Guðrún við Tónlistarskólana í Reykjavík og Kópavogi og loks við Söngskólann í Reykjavík. Hún var píanóleikari Sinfóníuhljómsveitar Íslands um árabil og sinnti einnig slíku starfi hjá RÚV en þar spilaði hún bæði með öðru tónlistarfólki og lék undir hjá einsöngvurum. Guðrún starfaði sem undirleikari með mörgum einsöngvurum, hljóðfæraleikurum, kammersveitum og kórum, bæði blönduðum og karlakórum, lengst af með Karlakór Reykjavíkur undir stjórn Páls P. Pálssonar. Hún var undirleikari Sigurðar Björnssonar óperusöngvara til fjölda ára og einnig Guðrúnar Á. Símonar óperusöngkonu. Guðrún flutti til Akureyrar árið 1987 og réðst þá til söngdeildar Tónlistarskólans á Akureyri. Einnig var hún undirleikari karlakóra þar um tíma.</p> <p>Úr minningargrein í Morgunblaðinu 20. nóvember 2012, bls. 24</p>

Staðir

Tónlistarskólinn í Reykjavík Tónlistarnemandi -
Konunglegi tónlistarháskólinn í Kaupmannahöfn Tónlistarnemandi -
Tónlistarskólinn í Reykjavík Tónlistarkennari -
Tónlistarskóli Kópavogs Tónlistarkennari -
Söngskólinn í Reykjavík Tónlistarkennari -
Tónlistarskólinn á Akureyri Tónlistarkennari 1987-

Tengt efni á öðrum vefjum

Meðleikari , píanókennari , píanóleikari , tónlistarkennari og tónlistarnemandi

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 15.07.2019