Leone Tinganelli (Leone Alexander Tinganelli) 22.01.1964-

Leone fluttist til Íslands haustið 1986. Fljótlega eftir komuna hingað hóf hann að spila og syngja ítölsk lög á hinum ýmsu veitingahúsum á höfuðborgarsvæðinu. Hann samdi 1997 lagið Io e te (Ég og þú) sem Emilíana Torrini flutti á plötunni Veðmál úr samnefndu leikriti.

Leone stofnaði tríóið Delizie Italiane 2000 en auk hans lék í bandinu Jón E. Hafsteinsson á klassískan gítar og Jón Rafnsson á kontrabassa. Þeir félagar einskorðuðu sig nær eingöngu við tónlist frá Napoli frá tímabilinu 1500 til 1980.

Árið 2002 samdi Leone lagið Se ci credi anche tu (Ef þú trúir því líka) sem var sent út í barnasöngvakeppnina Zecchino D'oro í Bologna á Ítalíu. Fyrir Íslands hönd söng ung stúlka að nafni Halldóra Baldvinsdóttir lagið sem hafnaði í fyrsta sæti yfir besta erlenda lagið og í öðru sæti í úrslitum.

Ári síðar eða 2003 samdi Leone svo lagið Hjartasól sem hann flutti ásamt Björgvini Halldórssyni á plötu þess síðarnefnda Duet og náði það lag talsverðum vinsældum, fékk góða útvarpsspilun og þá komu þeir félagar Leone og Björgvin fram í sjónvarpi þar sem þeir fluttu lagið.

Árið 2004 söng Leone inn tvö lög L'inverno puó Asetta... og Come un gabbiano inn á plötu sem dreift var til útvarpsstöðva, auk þess að vera boðin hér á tónlist.is.

Byggt á Tónlist.is (20. mars 2014).


Tengt efni á öðrum vefjum

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 20.03.2014