Nanna Egils Björnsson (Nanna Egilsdóttir Björnsson) 10.08.1914-22.03.1979

Nanna var fædd í Hafnarfirði. Sextán ára gömul fór Nanna til Skotlands á Pittmans College og nam verzlunarfræði. Nítján ára fór hún til Þýzkalands og nam hörpuleik og söng. Í Hamborg stundaði hún nám hjá hörpuleikara Ríkisóperunnar, og söngnám stundaði hún á þessum árum í Þýskalandi, Sviss og Austurríki. Til framhaldsnáms í söng fór hún til Ítalíu og Englands.

Nanna var víða í Mið-Evrópu. Fastráðin var hún við Tiroler Landestheater í Innsbruch 1942-1944 og við Stadttheater í Koblenz 1944-1946.

Nanna giftist ung Þórhalli Árnasyni sellóleikara, en fljótlega slitu þau samvistum. 10 maí 1947 kvæntist Nanna Birni Sv. Björnssyni. Árið 1947 fluttu þau hjón til Buenos Aires í Argentínu og voru þar í fjögur ár. Í Argentínu sótti Nanna söngtíma hjá Rose Ader. Frá Argentinu fluttu þau til Þýzkalands og dvöldu þar í nokkur ár. Nanna var meðal annars fastráðin í Hamborg við Operettenhaus og einnig hafði hún samning við Hamborgar-útvarpið.

Um áramótin 1963-1964 fluttu þau hjón til íslands. Árið 1970 fluttu þau til Vestmannaeyja og stunduðu þar kennslustörf. Nanna kenndi við Tónlistarskólann og þjálfaði Samkór Vestmannaeyja. í Vestmannaeyjum setti hún á svið Meyjaskemmuna.

Nanna og Björn áttu ekki börn en þau ólu upp barnabarn Björns Guðrúnu.

Úr andlástsfregn í Dagblaðinu 29. mars 1979, bls. 30


Tengt efni á öðrum vefjum

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 13.09.2016