Víkingur Heiðar Ólafsson 14.02.1984-

<p>Síðan Víkingur Heiðar lauk námi undir handleiðslu Robert McDonald við Juilliard skólann vorið 2008 hefur hann fengist við margvísleg verkefni í tónlist, ferðast sem einleikari og kammermúsíkant, umritað íslensk sönglög fyrir einleikspíanó, haldið meistaranámskeið og komið fram með flytjendum á borð við Martin Fröst og Björk.</p> <p>Víkingur hefur sérstakan áhuga á samtímatónlist og stefnir að því að panta og frumflytja nýjan píanókonsert á hverju ári. Hann hefur þegar frumflutt Píanókonsert nr. 2 eftir Snorra Sigfús Birgisson (2006) og Processions eftir Daníel Bjarnason (2009) og frumflutti fyrsta píanókonsert Hauks Tómassonar ásamt Caput tónlistarhópnum vorið 2010. Enn fremur hefur Víkingur frumflutt einleiks- og kammerverk eftir Mark-Anthony Turnage, Ólaf Axelsson og Atla Heimi Sveinsson.</p> <p>Víkingur hefur kennt meistaranámskeið við Oxford-háskóla, Tónlistarskólann í Reykjavík og Selið á Stokkalæk. Veturinn 2008-9 heimsótti hann grunn- og framhaldsskóla ásamt Árna Heimi Ingólfssyni og spilaði og spjallaði um tónlist við nemendur.</p> <p>Víkingur hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir leik sinn, m.a. tvívegis Íslensku tónlistarverðlaunin sem flytjandi ársins (2006) og bjartasta vonin (2004), konsertverðlaun Juilliard skólans árið 2008, Íslensku bjartsýnisverðlaunin 2009, auk þess sem honum hafa verið veittir styrkir úr Minningarsjóði um Birgi Einarson, Minningarsjóði Gunnars Thoroddsen, Minningarsjóði Jean Pierre Jacquillat og úr Tónlistarsjóði Rótarý. Víkingur var yngsti flytjandinn í hópi þeirra sem tilnefndir voru til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2009 og er tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem flytjandi ársins 2009.</p> <p>Fyrsti einleiksgeisladiskur Víkings var einnig tilnefndur til tónlistarverðlaunanna í flokki klassískra geisladiska en diskurinn inniheldur valsa og fantasíur eftir Johannes Brahms og Eroica tilbrigði Beethovens. Hann var tekinn upp í Gewandhaus tónlistarhúsinu í Leipzig og gefinn út af útgáfufyrirtæki Víkings, Hands on Music.</p> <p align="right">Textinn er af vef Sinfóníuhljómsveitar Íslands 2013.</p>

Skjöl


Tengt efni á öðrum vefjum

Píanóleikari
Ekki skráð
Ekki skráð

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 9.01.2015