Jóhanna Ósk Valsdóttir 15.12.1972 -

Jóhanna Ósk Valsdóttir hóf ung tónlistarnám og lærði á fiðlu og víólu við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar hjá Ernu Másdóttur og Ingvari Jónassyni. Síðan nam hún við strengjakennaradeild Tónlistarskólans í Reykjavík og var þar meðal annars undir handleiðslu Ingvars Jónassonar, Guðmundar Kristmundssonar og Gígju Jóhannsdóttur.

Söngnám stundaði hún hjá Ragnheiði Guðmundsdóttur og John A. Speight í Tónskóla Sigursveins og Sieglinde Kahmann og Krystynu Cortes í Tónlistarskólanum í Reykjavík.

Haustið 1998 hélt hún til framhaldsnáms við óperudeild Tónlistarháskólans í Stuttgart þar sem aðalkennarar hennar voru France Simard-Bruse og Steven Hess og lauk þaðan prófi sumarið 2000. Eftir að Jóhanna Ósk fluttist aftur heim til Íslands sótti hún einkatíma hjá Elínu Ósk Óskarsdóttur og hefur síðastliðin ár sótt einkatíma og námskeið hjá Jóni Þorsteinssyni.

Jóhanna Ósk hefur sungið með ýmsum kórum, þar á meðal Hamrahlíðarkórnum, Kór Áskirkju, Barbörukórnum og Kór Íslensku óperunnar, haldið einsöngstónleika á Íslandi og í Bandaríkjunum og komið fram sem einsöngvari með kórum hér á landi, í Ísrael, Tékklandi og Þýskalandi.

Tónleikaauglýsing á Menningarpressunni 31. október 2011.


Tengt efni á öðrum vefjum

Söngkona
Ekki skráð

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 13.11.2013