Þorsteinn Valdimarsson 31.10.1918-07.08.1977

<p>Þorstein [...] óx úr grasi í Teigi í Vopnafirði. Foreldrar hans voru hjónin Guðfinna Þorsteinsdóttir, skáld, sem birti ljóð sín undir nafninu Erla og Valdimar Jóhannesson, bóndi. Þorsteinn varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1939 og lauk síðan guðfræðiprófi frá Háskóla Íslands eftir einungis tveggja ára nám. Eftir það var hann einn vetur við tónlistarnám í Vínarborg, en áður hafði hann stundað nám í Tónlistarskólanum í Reykjavík. Í Leipzig í Þýskalandi dvaldist hann um tveggja ára skeið (1959-1961). Þorsteinn bjó lengstan aldur í Kópavogi. Hann var kennari við Stýrimannaskólann í Reykjavík í nærfellt tvo áratugi, eða allt til dauðadags 7. ágúst 1977.</p> <p>Þorsteinn samdi átta ljóðabækur, Villta vor, Hrafnamál, Heimhvörf, Heiðnuvötn, Limrur, Fiðrildadans, Yrkjur og Smalavísur. Hann var einnig gott tónskáld og hafa m.a. verið gefin út 32 sönglög eftir hann. Að auki vann Þorsteinn mikið þýðingarstarf einkum á söngljóðum. "Við slík vandaverk nutu sín vel hæfileikar Þorsteins á sviðum beggja listgreina, skáldskapar og tónlistar, enda mun enginn Íslendingur hafa unnið jafn stór og vandasöm verk af þessu tagi og hann." (Eysteinn Þorvaldsson. 1998. Inngangur. Í Þorsteinn Valdimarsson, Ljóð. Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands.) Þorsteinn þýddi þrjár óperur og allmarga söngleiki og tvö af hinum stóru söngverkum Bachs: Jólaoratoríuna og Mattheusarpassíuna.</p> <p>Í ljóðum sínum lætur Þorsteinn Valdimarsson sig þjóðfélagsmál miklu skipta og hafði ákveðnar skoðanir í þeim efnum. Þjóðmálaviðhorf hans einkennast af metnaði og umhyggju fyrir fullveldi og sjálfstæði þjóðarinnar og andúð á hernaði og áþján. Í mörgum ljóðum hans endurspeglast togstreita milli þjóðfrelsis og alþjóðahyggju sem segja má að séu leiðarstef í sjálfstæðisbaráttu íslensku þjóðarinnar á 20. öldinni. Þjóðfrelsisviðhorf Þorsteins voru nátengd náttúrusýn hans sem einkenndist alla tíð af virðingu fyrir náttúrunni, vernd hennar og ást á heimahögum. Í ljóðum skáldsins kemur einnig fram mikil tryggð við íslenskan menningar- og ljóðaarf, einkum Eddukvæði. Heiti dagskrárinnar, "Vaki þjóð," er tekið úr einu af þekktari ljóða skáldsins, Draumvísu, sem er hvatning til þjóðarinnar um að standa vörð við fullveldi og sjálfstæði og afneita hernaðarhyggju og nýlendudrottnun.</p> <p align="right">Af vefnum <a href="https://www.fullveldi1918.is/is/dagskra-arsins/vaki-thjod-aevi-og-storf-thorsteins-valdimarssonar-skalds-1">Fullveldi Íslands 1918-2018</a></p>

Staðir

Menntaskólinn í Reykjavík Nemandi -1939
Háskóli Íslands Háskólanemi 1939-1941
Tónlistarskólinn í Reykjavík Tónlistarnemandi -

Heimildarmaður/flytjandi í eftirfarandi hljóðritum

8 hljóðrit
Dags Safnmark Efni Heimildarmenn #
24.08.1969 SÁM 85/323 EF Á ég að segja þér söguna af kónginum Gúlifer Þorsteinn Valdimarsson 20963
24.08.1969 SÁM 85/323 EF Þar segir af karli og kerlingu sem áttu sér þrjár dætur, sem hétu Sól, Nótt og Spýta Þorsteinn Valdimarsson 20964
24.08.1969 SÁM 85/323 EF Sagt frá því hvað venja var að segja við börn sem trufluðu smið í smiðju Þorsteinn Valdimarsson 20965
24.08.1969 SÁM 85/323 EF Hálfrúin hleypur ær, sungið tvisvar; variantar í texta Þorsteinn Valdimarsson 20966
24.08.1969 SÁM 85/323 EF Guðs engla til höfða og fóta Þorsteinn Valdimarsson 20967
24.08.1969 SÁM 85/324 EF Blístrar lagið sem móðir hans hafði við Tunglið glottir gult og bleikt Þorsteinn Valdimarsson 20979
24.08.1969 SÁM 85/324 EF Blístrar lagið sem móðir hans hafði við sitt eigið kvæði Vor og haust eða Helga sat við hafið ein Þorsteinn Valdimarsson 20980
24.08.1969 SÁM 85/324 EF Blístrar lagið sem móðir hans hafði við vísur Benedikts Gröndal um stíginn upp með kirkjugarðinum í Þorsteinn Valdimarsson 20981

Tengt efni á öðrum vefjum

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 31.10.2018