Kristinn Jónasson 21.06.1897-31.03.1973

<p>Kristinn Jónasson fæddist í Garðshúsum á Eyrarbakka 21. júní 1897 og ól þar mestallan aldur sinn. Hugur hans hneigðist snemma að tónlist og átti hann því láni að fagna að fá að læra á orgel á sínum uppvaxtarárum. Fyrstu tilsagnar naut hann hjá frú Guðmundu Níelsen á Eyrarbakka, en hún var fjölhæf tónlistarkona. </p> <p>Þegar Kristinn var hálf þrítugur, var hann um tíma hjá Sigfúsi Einarssyni við tónlistarnám, einkum því er laut að kirkjumúsík, því þá var afráðið að hann tæki við organleikarastarfi við Eyrarbakkakirkju. </p> <p>Þetta var árið 1923, og frá þeim tíma var Kristinn organisti við kirkjuna samfleytt í rúm 40 ár. Eyrarbakkakirkja eignaðist pípuorgel með fótspili, skömmu eftir 1950 og auðnaðist Kristni því að leika á slíkt hljóðfæri í rúman áratug, eða þar til hann lét af organistastarfi nær sjötugur. Ekki er mér kunnugt um nemendur Kristins í hljóðfæraleik, en einn þeirra er sveitungi hans og systursonur, Haukur Guðlaugsson organleikari á Akranesi.</p> <p>Auk þess sem Kristinn Jónasson var hinn skyldurækni kirkjuorganisti um áratugi, lagði hann gjörva hönd á margt, og mikið yndi hafði hann af smíðum. Kjörgripir margir bera því vitni, hver snillingur hann var í höndunum. Hans aðal fyrirvinnustarf var þó tengt rafmagninu, sem hann lærði ungur að umgangast, og um langt árabil veitti hann forstöðu og rak fyrir eigin reikning rafstöðina á Eyrarbakka.</p> <p> Það hefur tvímælalaust verið honum hugljúft, löngum, að veita birtu og yl frá rafstöðinni og sjá hvað þessi kraftur, sem enginn getur þó séð, fær áorkað í lífsbaráttu fólksins. Og svo jafnframt með starfi sínu við kirkjuna, að eiga sinn stóra þátt í því að tengja hugi þess alheimskraftinum ósýnilega, sem allt mannlífið fær birtu sína frá. Það er fyrir þennan göfuga þátt í hinu fjölbreytta og farsæla ævistarfi Kristins Jónassonar, sem hans er minnst í þessu blaði okkar organista.</p> <p> Við færum honum þakkir og blessum minningu hans. </p> <p align="right">Einar Sigurðsson. Organistablaðið nr. 1, 6. árg. Júní 1973.</p>

Staðir

Eyrarbakkakirkja Organisti 1923-1964

Skjöl


Tengt efni á öðrum vefjum

Organisti og tónlistarmaður

Hugi Þórðarson uppfærði 12.12.2014