Einar Einarsson 24.09.1853-07.01.1891

Einar hafði í nokkurn tíma borið með sér orgel í Hrunakirkju, sem hann hafði sjálfur smíðað, til kirkjunnar og leikið á það við messur áður en orgel var keypt árið 1897.

Einar Einarsson, f. í Laxárdal í Eystrihrepp 24. sept. 1853, organisti, söngkennari og smiður í Hafnarfirði, dó þar 7. jan. 1891 (38 ára gamall). Árið 1880 kvæntist hann Sigríði, f. 2. mars 1952, d. 4. jan. 1915, Jónsdóttur hreppstjóra í Hörgsholti, Jónssonar þar, Magnússonar. Sama ár tók hann við búi af móður sinni í Laxárdal en 1883 hætti hann búskap þar og fluttist til Hafnarfjarðar með fjölskyldu sinni og starfaði þar til dauðadags.

Aðallega lagði hann stund á allskonar smíði, enda var hann talinn þjóðhagasmiður og jafnvígur á tré, kopar og járn. Smíðaði hann t.d. saumavél að öllu leyti. Prjónavél átti hann nær fullsmíðaða, er hann féll frá. Orgel eða orgelharmóníum smíðaði hann og. Alls hafði hann smíðað 16 orgel, þar af fóru 10 í kirkjur landsins. Fyrsta orgelið smíðaði hann heima í Laxárdal, þá 19 ára gamall. Seinast var það orgel í rusli á fornminjasafninu.

Einar var talinn mesti listamaður og einn þeirra manna, sem flest lá opið fyrir, bæði til munns og handa. En mest yndi hafði hann af söng og músik. Var hann organisti í Garða- og Bessastaðakirkju og söngkennari í Flensborgarskóla um skeið. Voru það hvorttveggja aukastörf, því að ekki gáfu slík viðfangsefni hér á landi í þá daga nægilegt í aðra hönd til framfærslu fjölmennu heimili. Eitthvað mun hann hafa átt við tónsmíði. Skömmu áður en hann dó hafði hann fullbúið til prentunar dálítið safn af lögum, er hann hafði sjálfur samið en því miður er þetta lagasafn týnt. Dauða Einars bar að með þeim hætti að hann lenti í vondu veðri og blotnaði á leið til kirkju til jarðarfarar en fékk upp úr því lungnabólgu.

„Einar organisti var bráðgjör, hár vexti, þrekinn um herðar og þykkur undir hönd og kraftalegur, ekki neitt fríður, ljóslitaður í andliti, með dökkt hár og manna karlmannlegastur, geðgóður og gamansamur. Snemma var hann duglegur til vinnu, svo að hann átti fáa jafningja. Göngumaður var hann með afbrigðum.“ Svo er honum lýst af kunnugum samtímamanni og sveitunga.

Einar eignaðist átta börn, fimm þeirra dóu á barnsaldri en þrjú náðu fullorðins aldri og er af þeim komin allstór ætt.

heimildir: Nokkrar Árnesingaættir. Sigurð E. Hlíðar 1956; Afkomendur Einars.

Staðir

Hrunakirkja Organisti 1879-1883

Tengt efni á öðrum vefjum

Bjarki Sveinbjörnsson uppfærði 21.09.2016