Marteinn H. Friðriksson (Fritz Martin Hunger, Martin Hunger, Marteinn H. Friðriksson) 24.04.1939-10.01.2010

Marteinn H. Friðriksson dómorganisti ... (f. Fritz Martin Hunger) fæddist í Meissen í Þýskalandi. Hann lagði stund á kirkjutónlist, hljómsveitarstjórn og tónsmíðar í borgunum Dresden og Leipzig í heimalandi sínu. Hingað til lands kom Marteinn strax að loknu námi, árið 1964, og starfaði hér upp frá því.

Fyrstu árin var hann skólastjóri Tónlistarskólans í Vestmannaeyjum og organisti í Landakirkju. Hann var organisti við Háteigskirkju í Reykjavík 1970-1978 en eftir það organisti við Dómkirkjuna allt til dánardægurs. Síðast sat hann við hljóðfærið í kirkjunni í útvarpsmessu á aðfangadagskvöld á nýliðnum jólum.

Marteinn starfaði nær fjóra áratugi sem kennari við Tónlistarskólann í Reykjavík. Auk þess að vera stjórnandi Dómkórsins í Reykjavík stjórnaði hann um árabil söngsveitinni Fílharmóníu, kór Menntaskólans í Reykjavík og sönghópnum Hljómeyki, annaðist útsetningar á tónlist og sinnti trúnaðarstörfum í þágu tónlistarmanna. Eftir hann liggja mörg tónverk og útsetningar, einkum fyrir Dómkórinn og Skólakór Kársness. Fyrri kona Marteins var Hrefna Oddgeirsdóttir. Eftirlifandi eiginkona hans er Þórunn Björnsdóttir, tónmenntakennari og kórstjóri í Kópavogi, og eiga þau fjögur börn: Kolbein, Þóru, Maríu og Martein.

Úr andlátsfregn Mbl.is 1. nóvember 2010.

Sumir tónlistarmenn af erlendu bergi brotnir eru orðnir svo samsamaðir íslenskum veruleika að uppruninn vill næstum gleymast. Einn slíkur maður er Marteinn H. Friðriksson, organisti í Dómkirkjunni með meiru. Hann kom hingað frá Þýskalandi árið 1964 og starfaði fyrst í Vestmannaeyjum en fluttist upp á fast land árið 1970. Fyrst var hann organisti í Háteigskirkju en hefur frá 1978 gegnt stöðu organista og kórstjóra í Dómkirkjunni. Hann hefur kennt í Tónlistarskólanum í Reykjavík og í Listaháskóla Íslands og stendur árlega fyrir tónlistarhátíð í Dómkirkjunni.

Úr Morgunbalaðsgrein Ingibjargar Eyþórsdóttur: Erlendir tónlistarmenn á Íslandi á 20. öld Grein 4: Frjótt samstarf, frjótt samspil.

Staðir

Dómkirkjan Organisti 1978-2010
Háteigskirkja 1970-1978

Hópar

Hópur 1 Stöður Frá Til
Lúðrasveit Vestmannaeyja Stjórnandi 1966-04 1969
Söngsveitin Fílharmónía Stjórnandi 1976 1980

Skjöl


Tengt efni á öðrum vefjum

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 28.09.2016