Antonía Hevesi 12.12.1964-

Antonía Hevesi píanóleikari er fædd í Ungverjalandi og útskrifaðist úr Franz Liszt tónlistarakademíunni í Búdapest með MA gráðu í kórstjórn og sem framhaldsskólakennari í söng og hljómfræði. Frá árinu 1990 stundaði hún orgelnám við Tónlistarháskólann í Graz í Austurríki hjá Otto Bruckner prófessor, þar til hún fluttist til Íslands árið 1992.

Antonía starfar nú sem orgel- og píanóleikari á Íslandi, en hefur haldið fjölda tónleika sem orgelleikari og píanómeðleikari víðsvegar um Evrópu og Kanada. Hún hefur tekið þátt í meistaranámskeiðum í píanóundirleik hjá Dalton Baldwin og í söng hjá Lorraine Nubar og Olivera Miljakovic og spilað inn á geisladiska. Hún er listrænn stjórnandi og píanóleikari hádegistónleikaraðar Hafnarborgar og píanóleikari ÓP-hópsins, hóps ungra óperusöngvara. Antonía er fastráðinn æfingapíanisti Íslensku Óperunnar og hefur tekið þátt í mörgum uppsetningum þar, nú síðast Ástardrykknum eftir Donizetti.

Listasafn Sigurjóns Ólafssonar – Sumartónleikar 3. ágúst 2010.

Antonía Hevesi kom stuttu síðar eða árið 1992 og ætlaði upphaflega bara að vera hér í eitt ár. Hún hafði ráðið sig til kennslu í Finnlandi sem átti að hefjast árið 1994 og hafði verið á finnskunámskeiði; reyndar tekið finnskupróf daginn áður en hún kom til Íslands. Kunningjar hennar voru á Íslandi og þekktu til á Siglufirði og báðu hana að sækja um starf þar og kenna þennan tíma sem hún beið eftir að halda til Finnlands. Stuttu áður en hún ætlaði að halda til baka heyrði hún ungan mann syngja úti á torgi. Hann var að syngja eitthvert rokklag, en röddin var þvílík að Antonía ákvað að þessi drengur yrði að komast í nám. Hún hætti við að fara til Finnlands og lagði sitt af mörkum til að draga drenginn í söngtíma. Þetta var Hlöðver Sigurðsson sem nú er í framhaldsnámi á Ítalíu hjá Kristjáni Jóhannssyni. Um það bil ári eftir að hún hafði útskrifað Hlöðver og komið honum til Lundúna í framhaldsnám flutti hún til Hafnarfjarðar, hún sá auglýst þar spennandi starf og langaði til að komast í hringiðu tónlistarlífsins í landinu. Það hefur henni tekist; hún er æfingapíanisti í Íslensku óperunni og listrænn stjórnandi og píanóleikari með hádegistónleikaröð Hafnarborgar og hefur með því skapað sjálfri sér skemmtilegan starfsvettvang.

Úr grein Inginbjargar Eyþórsdóttur: Erlendir tónlistarmenn á Íslandi á 20. öld – 4. grein: Frjótt samstarf, frjótt samspil.


Tengt efni á öðrum vefjum

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 17.07.2015