John Speight (John Anthony Speight) 27.02.1945-

John Speight fæddist á Englandi. Hann stundaði söngnám við Guildhall School of Music and Drama í Lundúnum á árunum 1964-72. Jafnframt lagði hann stund á tónsmíðar við sama skóla, undir handleiðslu B. Orr, og var í einkatímum hjá hinu þekkta tónskáldi Richard Rodney Bennett. Árið 1972 fluttist hann til Íslands og hefur verið búsettur hér síðan og er íslenskur ríkisborgari.

Eftir John liggja margs konar tónsmíðar, stórar og smáar, allt frá einleiks- og einsöngsverkum upp í hljómsveitarverk. Önnur sinfónía Johns Speight var flutt á alþjóða tónlistarhátiðinni ISCM - International Society for Contemporary Music árið 1992 og fimm sinnum hafa tónsmíðar hans verið fluttar á norrænum músíkdögum, þar af tvær sinfóníur ásamt kammerverkum. Árið 1995 fékk John Speight listamannalaun til þriggja ára og dvaldi þá um eins árs bil í Bandaríkjunum þar sem hann samdi nokkur verk, meðal annars þriðju sinfóníu sína. Lagaflokkur við ljóð Emily Dickinson, The Lady in White var frumfluttur í New York árið 1997, og Sam‘s Mass fyrir blandaðan kór, sólósópran og óbó sem samin var til minningar um ungan vin tónskáldsins sem lést af slysförum var frumflutt í Bretlandi árið 1998. Schola Cantorum frumflutti verkið á Íslandi, í Hallgrímskirkju í janúar 1999.

John Speight var kosinn formaður Tónskáldafélags Íslands 1992 og gegndi hann því embætti til ársins 1995. Hann hefur haldið fjölda einleikstónleika, komið fram með mörgum kammerhópum og sungið ýmis óperuhlutverk á íslensku sviði, bæði í Þjóðleikhúsinu og Íslensku óperunni, auk þess sem hann hefur kennt söng og tónfræði við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar.

Úr tónleikaauglýsingu: John Speight og CAPUT – 15:15 í Norræna húsinu 10. nóvember 2013.


Tengt efni á öðrum vefjum

Söngkennari, söngvari og tónskáld
Ekki skráð

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 16.07.2015