John Speight (John Anthony Speight) 27.02.1945-

<p>John Speight fæddist á Englandi. Hann stundaði söngnám við Guildhall School of Music and Drama í Lundúnum á árunum 1964-72. Jafnframt lagði hann stund á tónsmíðar við sama skóla, undir handleiðslu B. Orr, og var í einkatímum hjá hinu þekkta tónskáldi Richard Rodney Bennett. Árið 1972 fluttist hann til Íslands og hefur verið búsettur hér síðan og er íslenskur ríkisborgari.</p> <p>Eftir John liggja margs konar tónsmíðar, stórar og smáar, allt frá einleiks- og einsöngsverkum upp í hljómsveitarverk. Önnur sinfónía Johns Speight var flutt á alþjóða tónlistarhátiðinni ISCM - International Society for Contemporary Music árið 1992 og fimm sinnum hafa tónsmíðar hans verið fluttar á norrænum músíkdögum, þar af tvær sinfóníur ásamt kammerverkum. Árið 1995 fékk John Speight listamannalaun til þriggja ára og dvaldi þá um eins árs bil í Bandaríkjunum þar sem hann samdi nokkur verk, meðal annars þriðju sinfóníu sína. Lagaflokkur við ljóð Emily Dickinson, The Lady in White var frumfluttur í New York árið 1997, og Sam‘s Mass fyrir blandaðan kór, sólósópran og óbó sem samin var til minningar um ungan vin tónskáldsins sem lést af slysförum var frumflutt í Bretlandi árið 1998. Schola Cantorum frumflutti verkið á Íslandi, í Hallgrímskirkju í janúar 1999.</p> <p>John Speight var kosinn formaður Tónskáldafélags Íslands 1992 og gegndi hann því embætti til ársins 1995. Hann hefur haldið fjölda einleikstónleika, komið fram með mörgum kammerhópum og sungið ýmis óperuhlutverk á íslensku sviði, bæði í Þjóðleikhúsinu og Íslensku óperunni, auk þess sem hann hefur kennt söng og tónfræði við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar.</p> <p align="right">Úr tónleikaauglýsingu: John Speight og CAPUT – 15:15 í Norræna húsinu 10. nóvember 2013.</p>

Tengt efni á öðrum vefjum

Söngkennari , söngvari og tónskáld
Ekki skráð

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 16.07.2015