Örn Ármannsson 17.02.1943-18.05.2006

<p>Örn fór ungur að leika á gítar og margir muna hann úr Fimm í fullu fjöri og hljómsveitum Hauks Morthens og Svavars Gests, þar sem hann gat einnig brugðið fyrir sig grínleik á góðri stundu. Þannig vann hann fyrir sér. En það var djassinn sem átti huga hans allan. Fljótt varð hann einn af djassgítarmeisturum Íslands ásamt Ólafi Gauk og Jóni Páli. Björn Thoroddsen og Hilmar Jensson komust í hópinn síðar. Það var ekki síst á blómaskeiði Jazzklúbbs Reykjavíkur, er Þráinn Kristjánsson veitti forstöðu, að list Arnar blómstraði. Þá kom fjöldi erlendra djassmeistara til Íslands og þeir sem léku nær alltaf með gestunum erlendu voru: Örn á gítar, Þórarinn Ólafsson á píanó og Pétur Östlund á trommur. Ég man glöggt, er ég ræddi við hina erlendu meistara, hve þeir undruðust að heyra annan eins gítarleikara og Örn hér á skerinu. Hann fylgdist vel með því sem var að gerast í gítarleik umheimsins og var fljótur að læra af meisturum á borð við Wes Montgomery.</p> <p>Ég kynntist Ödda fyrst í júlí 1962, hann var mér ári eldri, þegar ég hélt með fríðum flokki ungra sósíalista á heimsmót æskunnar í Helsinki. Með okkur í för var hljómsveit Hauks Morthens, með Jón Möller, Ödda, Bjössa bassa og Guðmund Steingríms innanborðs. Hljómsveit Gunnars Ormslev, þar sem Haukur var söngvari, hafði unnið frækinn sigur á heimsmótinu í Moskvu 1957 og fengið þar gullverðlaun sem besta djasshljómsveitin, en í Helsinki fengu þeir Bjössi bassi og Öddi gullverðlaun fyrir að vera í hópi bestu djasseinleikara mótsins og voru þó engir aukvisar í sendinefndum annarra ríkja; nægir að nefna Archie Shepp, sem var í bandaríska hópnum, og John Tchichi sem var í þeim danska. Vorum við Íslendingarnir yfirmáta stoltir af Ödda og Bjössa. Eftir heimsmótið var haldið til Leningrad þar sem hljómsveitin lék bæði í sjónvarpi og á tónleikum og mundu flestir þar í landi eftir Hauki frá mótinu 1957.</p> <p>Því miður er alltof lítið varðveitt af gítarleik Ödda, en á fyrstu skífunni er Jazzvakning gaf út, Samstæðum eftir Gunnar Reyni Sveinsson, leikur hann bæði á gítar og selló, sem hann lék stundum á með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Upptakan var gerð á fyrstu listahátíð í Reykjavík árið 1970. Gítarleikur hans er stórglæsilegur á þessari plötu, sem bíður þess að vera gefin út á geisladiski. Ýmsar upptökur með honum hafa varðveist í einka- söfnum, m.a. með hinum erlendu djassmeisturum er sóttu Jazzklúbb Reykjavíkur heim.</p> <p align="right">Vernharður Linnet. Úr minningargrein í Morgunblaðinu 29. maí 2006, bls. 28.</p>

Hópar

Hópur 1 Stöður Frá Til
Fimm í fullu fjöri Gítarleikari 1959 1959
Hljómsveit Hauks Morthens Gítarleikari 1962-01-01 1963
Hljómsveit Svavars Gests Gítarleikari

Skjöl


Tengt efni á öðrum vefjum

Gítarleikari

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 23.02.2021