Magnús Einarsson 1098-30. 09.1148

Faðir Magnúsar var Einar Magnússon Þorsteinssonar Hallssonar af Síðu. Sagt er frá Þorsteini í Þorsteins sögu Síðu-Hallssonar. Síðu-Hallur, langafi Magnúsar, var íslenskur goðorðsmaður og höfðingi á 10. öld og einn helsti leiðtogi kristinna manna á Alþingi við kristnitökuna. Faðir Halls var Þorsteinn Böðvarsson, sonur Böðvars hvíta Þorleifssonar, landnámsmanns á Hofi í Álftafirði.

Móðir Magnúsar var Þuríður Gilsdóttir, Hafurssonar, Svertingssonar, Hafur-Bjarnarsonar.

Magnús var kjörinn biskup eftir lát Þorláks Runólfssonar 1133 og vígður af Össuri erkibiskupi í Lundi 28. október 1134. Hann var því fjórði biskupinn í Skálholti, á eftir Ísleifi Gissurarsyni, Gissuri Ísleifssyni og Þorláki.

Magnús bætti kirkjuna sem Gissur biskup hafði reist í Skálholti og efldi staðinn mjög og keypti til hans jarðeignir, þar á meðal nær allar Vestmannaeyjar. Talið er að hann hafi ætlað að stofna klaustur þar.

Magnús var talinn mikill manna- sættir, ekki síður en langafi hans, Síðu-Hallur. Hann notaði jafnvel eigur sínar til að kaupa menn til sátta.

Magnús brann inni í Hítardal þar sem hann var við veislu á heimleið úr vísitasíuferð um Vestfirði. Brunnu þar inni 72 menn alls, þar á meðal átta prestar. Er það mannskæðasti bruni sem hefur orðið á Íslandi. Bóndinn í Hítardal, Þorleifur beiskaldi Þorláksson, bjargaðist úr brunanum og átti langt líf fyrir höndum (d. 1200). Hann var stórauðugur og gaf hann Hítardal til klausturstofnunar að því er talið er til minningar um brunann. Litlar heimildir eru til um það klaustur og er jafnvel talið óvíst að þar hafi verið eiginlegur klausturlifnaður.

Hallur Teitsson var kjörinn biskup eftir Magnús en hann andaðist erlendis og fékk ekki vígslu. Næsti biskup í Skálholti á eftir Magnúsi var því Klængur Þorsteinsson.

Merkir Íslendingar. Morgunblaðið 30 september 2015, bls. 43.

Staðir

Skálholt Biskup 1134-1148

Tengt efni á öðrum vefjum

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 1.10.2015