Sigurður Ólafsson 04.12.1916-13.07.1993

Sigurður Jón Ólafsson, söngvari og hestamaður, fæddist í Reykjavík 4. desember 1916. Hann var ættaður af Snæfellsnesi, sonur Ólafs Jónatanssonar, verkamanns í Reykjavík, og k.h., Þuríðar Jónsdóttur frá Elliða í Staðarsveit. Ólafur var sonur Jónatans, bónda á Kolbeinsstöðum, bróður Páls, langafa Megasar. Þuríður var systir Vigfúsar, föður Erlings söngvara. Systir Þuríðar var Stefanía, móðir Oddfríðar skáldkonu, móður Guðmundar Ingólfssonar djasspíanistasnillings.

Bræður Sigurðar voru Erling Ólafsson söngvari og Jónatan Ólafsson, píanóleikari, hljómsveitarstjóri og tónskáld, afi Jónatans Garðarssonar, dagskrárgerðarmanns, tónlistarútgáfustjóra og fyrrv. formanns Jazzvakningar.

Eftirlifandi eiginkona Sigurðar er Inga Valfríður Einarsdóttur frá Miðdal (Snúlla) fædd 1918, og eignuðust þau sex börn, Valgerði, fædd 1937, Erling, fæddur 1942, Ævar, fæddur 1944, Þuríði, fædd 1949, söngkonu, Ólaf, fæddur 1950, og Gunnþór, fæddur 1960, en dóttir Sigurðar frá því fyrir hjónaband er Elsa.

Sigurður var bílstjóri á sínum yngri árum, rannsóknarmaður á Rannsóknarstofu HÍ og á Keldum, gærumatsmaður hjá SÍS, kjötmatsmaður hjá yfirdýralækni og sá um talningu búfjár í borgarlandinu.

Sigurður sótti ungur söngtíma til Sigurðar Birkis og Guðmundar Jónssonar, söng með Karlakór Reykjavíkur og síðar með eldri félögum kórsins. Hann söng í Rigolettó, fyrstu óperunni sem hér var færð upp, í óperettunum Leðurblökunni og Bláu kápunni og lék og söng í fjölda leikrita. Hann hélt fjölda tónleika, var söngvari með ýmsum danshljómsveitum og söng dægurlög inn á fjölda hljómplatna.

Þá var Sigurður landsþekktur hestamaður, stundaði hestamennsku frá fermingaraldri og átti fjölda hrossa. Þekktasta skeiðhross hans var Gletta sem átti Íslandsmet í skeiði í 28 ár.

Merkir Íslendingar. Morgunblaðið. 4. desember 2013, bls. 35.

Hópar

Hópur 1 Stöður Frá Til
Hljómsveit Svavars Gests Söngvari

Tengt efni á öðrum vefjum

Söngvari
Ekki skráð

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 17.06.2017