Árni Kristjánsson 17.12.1906-19.03.2003

Árni Kristjánsson fæddist á Grund í Eyjafirði 17. desember 1906. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni 19. mars síðastliðinn. Foreldrar hans voru Kristján Árnason kaupmaður á Akureyri og Hólmfríður Gunnarsdóttir. Árni lærði á harmóníum hjá Sigurgeiri Jónssyni söngmeistara á Akureyri, en hélt síðan til Berlínar 1923 til náms hjá Isolde, dóttur Xavers Scharwenka og síðar til Kaupmannahafnar. Árni fluttist aftur heim til Íslands 1932 og það ár kvæntist hann Önnu Guðrúnu Steingrímsdóttur, f. 16. júlí 1910, dóttur Steingríms Matthíassonar héraðslæknis og Kristínar Katrínar Thoroddsen.

Þau Árni og Anna héldu utan til Þýskalands á ný sama ár en bjuggu síðar í Kaupmannahöfn uns þau fluttust heim til Íslands 1933 er Árni tók við stöðu sem kennari við Tónlistaskólann í Reykjavík. Þau Árni og Anna eignuðust þrjú börn, Ingva Matthías, f. 3. september 1933, d. 28. september 1996, Kristján, f. 26. september 1934, og Kristínu Önnu, f. 14. mars 1943. Barnabörn Árna og Önnu voru ellefu, en tvö eru látin. Barnabarnabörnin eru fjórtán og barnabarnabarnabörnin fimm.

Árni kenndi við Tónlistarskólann í Reykjavík frá 1933 til 1959, var yfirkennari og varaskólastjóri 1936 til 1956 og skólastjóri 1956 til 1959.

Árni varð tónlistarstjóri Ríkisútvarpsins 1959 og gegndi því starfi til 1975.

Árni hélt fjölda tónleika hérlendis sem erlendis sem einleikari og kom einnig fram með öðrum tónlistarmönnum. Þá hljóðritaði hann mikið af píanóleik sínum fyrir útvarp og lék inn á eina hljómplötu. Árni sat m.a. í stjórn Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Bandalags íslenskra listamanna, var meðal stofnenda Félags íslenskra tónlistarmanna og var formaður þess um skeið og formaður tónlistarnefndar NOMUS.

Árni skrifaði talsvert um tónlist og eftir hann liggur ritgerðasafnið Hvað ertu tónlist? sem kom út 1986 og skrif hans og þýðingar á bókum um Mozart, Carl Nielsen, Bach, Chopin og nú síðast Beethoven, en sú bók kom út skömmu fyrir síðustu jól. Árni hlaut margs konar viðurkenningar fyrir störf sín og var m.a. heiðursborgari Fort Worth, heiðursfélagi Félags íslenskra tónlistarmanna og Tónlistafélags Akureyrar og sæmdur hinni íslensku fálkaorðu þrívegis.

Úr minningargrein í Morgunblaðinu 28. mars 2003, bls. 38.

Tónlistarsafn Íslands í Landsbókasafni Íslands-Háskólabókasafni varðveitir talsvert efni tengt Árna - ljósmyndir, sendibréf, úrklippur svo dæmi séu tekin.

Jón Hrólfur - 15. febrúar 2019

Hópar

Hópur 1 Stöður Frá Til
Tríó Tónlistarskólans í Reykjavík Píanóleikari

Skjöl


Tengt efni á öðrum vefjum

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 15.02.2019