Ólafur Thorsteinsson (Ólafur Steingrímur Þorsteinsson Thorsteinsson) 11.05.1884-12.04.1963

Í Heimskringlu 25. september 1946 birtist stutt grein um Ólaf:

Ólafur er fæddur í Fjarðarkoti í Mjóafirði, þann 11. maí 1884. Foreldrar hans voru Þorsteinn Jónsson og Ingibjörg Einarsdóttir. Fluttu þau til Ameríku árið 1886 og settust að á svo kölluðum Sandhæðum í Norður Dakota. Þaðan fluttu þau til Nýja Islands árið 1889 og tóku sér bólfestu þar sem Ólafur enn á heima.

Þegar Ólafur var á tólfta ári var honum gefin fiðla. Tilsögn í fiðluspili fékk hann hjá Thorsteini Johnston, sem lengi var kennari í Winnipeg, og sömuleiðis hjá Geo Rutherford, sem einnig var kennari í Winnipeg.

Kennari hans í píanóspili og "Theory" var Jónas Pálsson, og sagði Ólafur mér svo frá "að hann hafi verið sá bezti kennari sem hann hafi nokkurn tíma þekt".

Síðan árið 1923 hefir hann haft aðal kenslustofu á Gimli, og þangað hafa prófdómarar komið á hverju ári frá Toronto Conservatory of Music, til að yfirheyra nemendurna.

Á þessu tímabili hefir hann komið í gegnum mismunandi próf, fiðlu, píanó og theory, nálægt þrjú hundruð nemendum, og hefir enginn af nemendum hans fallið við próf.

í hjáverkum hefir hann smíðað 19 fiðlur sem hafa reynst vel, og er það haft eftir fiðlu prófdómendum frá Toronto Conservatory of Music, að hann sé ef til vill bezti fiðlusmiður í Vestur Canada.

Íslendingabók.is segir um Ólaf:

Fór til Vesturheims 1886. Bóndi í Hólmi í nágrenni við Gimli, Manitoba, Kanada. Fiðlusmiður og tónlistarmaður, samdi lög. K1 vestra 1904: Kristín Andrésdóttir Skagfeld, f. 19.12.1885, d. 16.3.1930, dóttir Andrésar Jónssonar, f. 1855 og Steinunnar Þórarinsdóttur, f. 1860. K2 vestra: Þuríður Helga Bjarnadóttir, f. 18.1.1891, d. 1973, dóttir Bjarna Péturssonar, f. 1850 og Kristínar Þorleifsdóttur, f. 1855. Barn með Margréti Júlíönu Magnúsdóttur frá Krísuvík Halldórssonar: Guðbjörg, gift 1939 Hans Tærgesen á Gimli.

Tengt efni á öðrum vefjum

Bóndi, lagahöfundur, tónlistarkennari og tónlistarmaður
Ekki skráð

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 3.01.2018