Kristjana Þorsteinsdóttir ( Kristjana Magdalena Þorsteinsdóttir) 01.07.1903-19.10.1981

... Kristjana var dóttir Þorsteins Sigurðssonar Manbergs kaupmanns í Reykjavík og konu hans Gabríellu Benediktsdóttur. Þorsteinn dó ungur, en Gabríella rak eftir það blómabúð. Gabríella bjó í Brunnhúsum við Tjarnargötu, en fluttist með Kristjönu kornunga að Laugavegi 22a. Þar hófu þau Einar og Kristjana búskap og áttu þar heima til ársins 1948 er þau fluttust í nýtt hús að Oddagötu 6, í svo kölluðu prófessorahverfi sunnan Háskólans, þar sem þau áttu heimili til æviloka. Þorsteinn faðir Kristjönu var músíkalskur og lék í lúðrasveit, og hún hóf snemma nám í píanóleik, lærði fyrst hjá frú Petersen, móður Helga Pjeturss, og lék sem ung stúlka undir þöglum kvikmyndum í Fjalakettinum. Eitt ár var Kristjana við nám í Kaupmannahöfn hjá Haraldi Sigurðssyni prófessor. Um fyrstu kynni þeirra Einars Ólafs mun Kristjana hafa sagt: „Ég fór til hans og kynnti mig fyrir honum,“ en þannig stóð á því að hún hafði verið ráðin til að vélrita fyrir hann, og mun það hafa verið fljótlega eftir að hann kom heim frá námi. Kristjana hafði fengið lömunarveiki sem barn, og gat því ekki lært að ganga fyrr en hún var fjögurra ára, og bjó hún við afleiðingar þessara veikinda alla ævi. Ekki munu læknar hafa talið áhættulaust fyrir hana að eiga barn, en hún vildi þó hætta á það, og eignuðust þau soninn Svein 18. sept. 1934. Marga vini áttu þau hjón, íslenska og erlenda, og gestkvæmt var á heimilinu, viðmót húsbænda hlýtt og elskulegt og veitingar rausnarlegar. Öllum sem þangað komu var ljóst að mikið ástríki var með þeim...

Vésteinn Ólafsson. Andvari 1. janúar 1999, bls. 20

Í greininni segir einnig (bls. 23) að Kristjana hafi verið fyrsti píanókennari Rögnvaldar Sigurjónssonar píanóleikara.

Skjöl


Tengt efni á öðrum vefjum

Píanókennari

Rósa Þorsteinsdóttir uppfærði 3.10.2017