Ingveldur Ýr Jónsdóttir 26.07.1966-

<p>Ingveldur Ýr er fædd og uppalin í Reykjavík. Hún hóf ung ballettnám í Listdansskóla Þjóðleikhússins og síðar söngnám í Söngskólanum í Reykjavík. Þaðan lá leiðin í framhaldsnám við Tónlistarskóla Vínarborgar, þar sem hún stundaði einnig leiklistar og söngleikjanám. Lauk hún síðan mastersgráðu frá Manhattan School of Music í New York. Kennarar hennar voru Guðmunda Elíasdóttir, Svanhvít Egilsdóttir og Cynthia Hoffmann, auk þess sótti hún námskeið hjá m.a. Charles Spencer, Martin Katz og Phyllis Curtin. Hún hefur lokið Level One í Voice Craft hjá Jo Estill.</p> <p>Ingveldur Ýr vakti snemma athygli áheyrenda fyrir óvenju frjálslega sviðsframkomu og sterka leikhæfileika sem hafa nýst henni á margan hátt. Hún hefur ætíð haft fjölbreytni í verkefnavali og sungið í óperum, söngleikjum og kabarettum sem og á ljóðatónleikum.</p> <p>Ingveldur Ýr var um skeið fastráðin við Óperuna í Lyon í Frakklandi og söng þar ýmis hlutverk m.a. Dorabellu í Cosi fan Tutte, Orlovsky í Leðurblökunni, C-moll messu Mozarts, Carmen og einsmannsóperuna Miss Donnithorne´s Maggott eftir Peter Maxwell Davies. Við Bastilluóperuna söng Ingveldur Nornina í Hans og Grétu. Á íslensku óperusviði eru helstu hlutverk hennar Olga í Évgení Ónegin, Valþrúður og Fljóthildur í Niflungahringnum, Preziosilla í Á valdi Örlaganna, Dorabellu í Cosi fan Tutte eftir Mozart. Með Sumaróperu Reykjavíkur söng hún nýlega titilhlutverkið í Dido og Eneas.</p> <p>Ingveldur Ýr hefur verið gestur á alþjóðlegum tónlistarhátíðum og sungið með þekktum hljómsveitarstjórum á borð við Sir Neville Marriner og Kent Nagano. Hún var sérvalinn gestur á hinni virtu Tónlistarhátíð í Tanglewood í Bandaríkjunum, þar sem hún söng á ljóðatónleikum og nútímatónlistarhátíð, auk þess sem hún söng hlutverk Mrs. Sedley í Peter Grimes eftir Britten með hljómsveitarstjóranum Seiji Ozawa. Hún söng eitt af aðalhlutverkum í frumflutningi óperunnar The Cenci eftir englendinginn Havergal Brian í Queen Elizabeth Hall í London. Hún hefur margsinnis komið fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands m.a. í Guðrúnarkviðu eftir Jón Leifs; Níundu Sinfóníu Beethovens og nú síðast í Carmen.</p> <p>Ingveldur Ýr hefur æ meir helgað sig tónleikahaldi og hafa leiðir hennar legið um tónleikahús víða um heim auk þess sem hún hefur sungið fjölda tónleika á Íslandi. Hún lauk nýverið tónleikaferð um Kanada á vegum Þjóðræknisfélags Íslendinga í Norður-Ameríku. Hún kemur fram á geisladiskinum "Íslenska einsöngslagið" í útgáfu Gerðubergs og syngur verk Jóns Leifs á diskinum Hafís með Sinfóníuhljómsveit Íslands í útgáfu BIS.</p> <p align="right">Af Tónlist.is (24. febrúar 2014).</p>

Staðir

Söngskólinn í Reykjavík Tónlistarnemandi -
Söngskólinn í Reykjavík Tónlistarnemandi -
Tónlistarháskólinn í Vínarborg Háskólanemi -
Manhattan School of Music Háskólanemi -

Tengt efni á öðrum vefjum

Háskólanemi , söngkennari , söngkona og tónlistarnemandi
Ekki skráð

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 16.03.2016