Magnús Þór Jónsson (Megas) 07.04.1945-

<p>... Magnús Þór fæddist 7. apríl 1945 um það bil þegar síðari heimstyrjöldinni var að ljúka, sonur skáldkonunnar Þórunnar Elfu Magnúsdóttur og Jóns Þórðarsonar kennara og rithöfundar. Magnús Magnússon nafni hans og móðurafi var verkamaður í Reykjavík sem stundaði jafnframt sjóinn eins og altítt var. Margrét amma Megasar var frá Horni í Skorradal en föðurforeldrarnir Snæfellingar. Þau hétu Sesselja Jónsdóttir og Þórður Pálsson frá Borgarholti í Miklaholtshrepp. Þórður bóndi var afkomandi hins kunna snæfellska söngmanns Jóns dýrðarsöngs Pálssonar. Megas á því ekki langt að sækja tónlistargáfuna.</p> <p>Það er sennilegt að Megasi hafi verið ætlað að feta tónlistarbrautina líkt og öðrum ættmennum hans sem hafa helgað sig tónlistinni - hann hafi einfaldlega ekki geta flúið örlög sín. Honum er samt margt annað til lista lagt. Snemma kom í ljós hversu drátthagur Megas er og frá æskuárunum er til fjöldi teikninga af ýmsum toga sem hann hefur haldið til haga. Það er einnig stutt í skáldgáfuna enda voru foreldrar hans bókhneigt fólk og fengust bæði við skriftir. Bóklestur þótti dyggð á heimili Megasar sem las allt sem hann komst yfir.</p> <p>Megas féll fyrir Halldóri Kiljan Laxness eins og poppstjörnu þegar hann las Gerplu í útvarpið. Þá var pilturinn ellefu ára gamall og las Kiljan af áfergju eftir það. Þegar hann nálgaðist gelgjuárin kom rokkið með Elvis Presley í fararbroddi sterkt inn í líf hans. Megas lærði á gítar en sneri sér von bráðar að píanóinu eins og Einar Már eldri bróðir hans. Megas átti auðvelt með að setja saman lög og frá bernskudögum er hans fyrsta lag Gamli sorrý Gráni, en hann var einnig farinn að semja menúetta á píanóið á gagnfræðaskóla árunum. Hann sótti píanótíma meira af skyldurækni en áhuga og tók að setja saman texta við lögin sín. Þegar rokkið fór að daprast um 1960 hellti hann sér út í þjóðlagapælingar, keypti sér nótnabók með amerískri alþýðutónlist og lagði sig eftir skandinavískum þjóðlögum.</p> <p>Eftir landspróf fór Megas í M.R. þar sem hann var fyrsta kastið hálfgerður einfari líkt og hann hafði verið í gaggó. Hann tók þátt í að mála leiktjöld fyrir hundrað ára afmælissýningu Útilegumannanna eftir Matthías Jochumsson og komst von bráðar inní félagslífið. Megas gerði myndskreytingar í skólablaðið, fékk nokkur ljóða sinna birt í blaðinu og smásögur sem þóttu hreinasta svívirða. Hann var orðinn sannkallaður bóhem og hlustaði á klassík, einkum þungmelta tólf tóna tónlist eins og önnur gáfumenni. Þegar leið að stúdentsprófi var Megas farinn að leggja eyrun aftur við dægurtónlist og þar átti tónlist Bob Dylan stóran hlut að máli. Margorðir textar Dylans heilluðu Megas og höfðu veruleg áhrif á hann.</p> <p>Það voru ekki margir sem vissu hvað Megas var að fást við á tónlistarsviðinu enda var hann tregur til að leyfa fólki að heyra sköpunarverk sín. Að loknu stúdentsprófi innritaðist Megas í háskólann, var latur við að sitja tíma en dvaldi löngum stundum við skriftir og lestur á bókasafni skólans. Þar rakst hann á nafnið Megas í grískri orðabók og ætlaði að nota það sem skáldanafn þegar hann reyndi að fá birta eftir sig smásögu í Lesbók Morgunblaðsins. Smásagan komst inn eftir nokkrar hremmingar en hann varð að birta hana undir eigin nafni. Engu að síður fór hann að nota þetta listamannsnafn sem er nú orðið svo samtvinnað ævi hans og persónu að halda mætti að hann hefði verið skýrður Megas, en ekki Magnús Þór ...</p> <p align="right">Jónatan Garðarsson. Tónlist.is (29. mars 2014).</p>

Skjöl


Tengt efni á öðrum vefjum

Lagahöfundur , myndlistarmaður , skáld og söngvari
Ekki skráð

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 29.03.2014