<p>Jóhann fæddist í Keflavík. Foreldrar hans voru Jóhann Georg Runólfsson, bóndi og síðar bifreiðarstjóri í Keflavík, og Lovísa Aðalheiður Guðmundsdóttir, en seinni maður Lovísu og fósturfaðir Jóhanns var Reynir Ólafsson, sjómaður og verkstjóri.</p>
<p>Jóhann var rytmagítar- og bassaleikari, söngvari, laga- og textasmiður og upptökustjóri, lék m.a. með Óðmönnum I, Musica Prima, Óðmönnum II, Töturum, Náttúru og Póker, en hóf sólóferil 1972.</p>
<p>Jóhann sinnti einkum lagasmíðum, myndlist og vann ötullega að réttindum tónlistarfólks. Hann hélt fjölda myndlistarsýninga, gaf út ljóðabókina Flæði, samdi rúmlega 200 lög og texta sem komu út á plötum, þar á meðal til stuðnings ýmsum málefnum, svo sem lagið Hjálpum þeim. Helstu hljómplötur hans eru:</p>
<ul>
<li>Óðmenn 1970</li>
<li>Langspil 1974</li>
<li>Mannlíf 1976</li>
<li>Kysstu mig – Íslensk kjötsúpa 1978</li>
<li>Myndræn áhrif 1988</li>
<li>Gullkorn JGJ 2003</li>
<li>Á langri leið 2009 og </li>
<li>Jóhann G. In English 2010</li>
</ul>
<p>Jóhann var framkvæmdastjóri Gallerys Lækjartorgs, síðar Listamiðstöðvarinnar 1980-85, einn af stofnendum Samtaka alþýðutónskálda og textahöfunda 1979 og Félags tónskálda og textahöfunda 1983 og sat í stjórn FTT 1983-89. Hann var upphafsmaður Músíktilrauna 1982 ásamt Ólafi Jónssyni, forstöðumanni Tónabæjar, rak Tónlistarbarinn Púlsinn 1990-93 og sat í stjórn Samtaka um byggingu tónlistarhúss.</p>
<p>Jóhann var félagi í SÍM og var gerður að heiðursfélaga FTT árið 2003.</p>
<p>Jóhann stundaði nám við Samvinnuskólann að Bifröst 1963-65 og naut leiðsagnar Hrings Jóhannessonar í myndlist.</p>
<p>Börn Jóhanns eru Alma Dögg, Ívar Jóhann og Halldóra. Sambýliskona Jóhanns í 27 ár er Halldóra Jónsdóttir en dætur hennar eru Fríða og Jóhanna Methúsalemsdætur.</p>
<p align="right">Merkir Íslendingar. Morgunblaðið 22. febrúar 2017, bls. 27</p>
Hópar
Skjöl
Tengt efni á öðrum vefjum