Sigurður Hallmarsson 24.11.1929-23.11.2014

<p>Sigurður fæddist á Húsavík 24. nóvember 1929. Foreldrar hans voru Jónína Katrín Sigurðardóttir húsmóðir og Hallmar Helgason sjómaður. Sigurður lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Húsavíkur 1947 og kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1951. Hann nam við Leiklistarskóla Lárusar Pálssonar 1948 til 1951 og útskrifaðist sem myndmenntakennari frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1968. Hann stundaði einkanám í myndlist hjá Pétri Friðrik listmálara og sótti ýmis námskeið.</p> <p>Sigurður var kennari lengst af, frá 1947 til 1972, meðal annars í Flatey á Skjálfanda, á Akureyri og Húsavík. Hann var skólastjóri Barnaskóla Húsavíkur 1972-1987, fræðslustjóri Norðurlands eystra 1987-1989 og sinnti kennsluráðgjöf í listgreinum frá 1991. Hann var framkvæmdastjóri Sjúkrahúss Húsavíkur 1961-1966, í stjórn Leikfélags Húsavíkur 1954-1970 og formaður um árabil. Hann var mikill félagsmaður og sat í ýmsum ráðum og nefndum. Hann leikstýrði mörgum verkum, var stjórnandi Lúðrasveitar Húsavíkur um árabil og hélt margar málverkasýningar. Hin síðari ár stjórnaði hann Sólseturkórnum á Húsavík, allt til vors 2014. Hann fékk listamannalaun 1989 og hlaut Hina íslensku fálkaorðu.</p> <p align="right">Úr andlátsfregn í Morgunblaðinu 25. nóvember 2014, bls. 12.</p>

Viðtöl

Skjöl


Hugi Þórðarson uppfærði 11.09.2017