Karólína Eiríksdóttir 10.01.1951-

<p>Karólína Eiríksdóttir stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík þar sem Þorkell Sigurbjörnsson var kennari hennar í tónsmíðum. Hún hélt til framhaldsnáms við University of Michigan þar sem tónsmíðakennarar hennar voru George Wilson og William Albright. Karólína lauk meistaraprófi í tónlistarsögu og -rannsóknum árið 1976 og meistaraprófi í tónsmíðum lauk hún 1978. Hún hefur frá árinu 1979 búið og starfað á Íslandi og unnið við tónsmíðar og margvísleg önnur tónlistarstörf. Karólína hefur kennt við Tónlistarskólann í Reykjavík og Tónlistarskólann í Kópavogi, verið í stjórnum Íslenskrar tónverkamiðstöðvar, Tónskáldafélags Íslands, Listahátíðar í Reykjavík og Listaháskóla Íslands.</p> <p>Tónverk Karólínu hafa verið flutt víðsvegar um heim m.a. á Norrænum tónlistarhátíðum og á Íslandi. Þar að auki má nefna flutning í París, London, Glasgow, Tokyo, Vínarborg, Bandaríkjunnum, Þýskalandi, Spáni og Argentínu. Hljómsveitarverkið Sónans var flutt við opnun Scandinavia Today í Washington D.C. árið 1980. Ríkissjónvarpið pantaði verkið Sinfonietta fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands árið 1985. Óperan Någon har jag sett var pöntuð og flutt af Vadstena Akademien í Svíþjóð og hefur síðan verið flutt í Reykjavík, London og Greifswald. Árið 1992 var Karólína eitt þeirra tónskálda sem kynnt voru á Norrænu tónlistarhátíðinni í Gautaborg. Árið 1993 var verkið Three Paragraphs fyrir hljómsveit pantað og frumflutt á Stockholm New Music Festival. Árið 1995 pantaði Sinfóníuhljómsveit Álaborgar konsert fyrir klarínettu og hljómsveit og frumflutti sama ár. Toccata fyrir hljómsveit var pöntuð og flutt af Orkester Norden árið 1999, m. a. við opnun norrænu sendiráðanna í Berlín sama ár. Kammeróperan Maður lifandi var flutt í Reykjavík árið 1999 og tilnefnd til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs árið 2000. Árið 2001 var Karólína staðartónskáld Sumartónleika í Skálholti.</p> <p>Auk þessa hefur tónlist Karólínu verið flutt við ýmis tækifæri, t.d. af BBC Scottish Symphony Orchestra í Glasgow, Arditti Strengjakvartettinum í London, Íslensku kammerhljómsveitinni í Kennedy Center, Washington D.C., á Norrænum músíkdögum, Kuhmo hátíðinni í Finnlandi, Myrkum músíkdögum, Raftónlistarhátíðum í Svíþjóð og á Íslandi, ISCM í Moldavíu og Sinfóníuhljómsveitinni í Santa Fé í Argentínu.</p> <p align="right">Tónlist.is – 3. nóvember 2013.</p>

Tengt efni á öðrum vefjum

Tónskáld
Ekki skráð
Ekki skráð

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 3.11.2013