Þuríður Sigurðardóttir 23.01.1949-

Þann 13. nóvember 1965 kom til sögunnar ný söngkona, Þuríður Sigurðardóttir, á hinum vinsælu, geysi-fjölbreyttu dansleikjum í Lídó, eins og sagði í auglýsingu í Morgunblaðinu. Helgina á eftir var því slegið upp að söngkonan hafi slegið í gegn og að þar færi ný stjarna! Hin 16 ára söngkona var í kjölfarið drifin í hljóðver og fyrsta lagið „Elskaði mig" var tekið upp og gefið út á hljómplötu með hljómsveitinni Lúdó og Stefáni.

Skömmu síðar hófst fimm ára farsælt samstarf Þuríðar með hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar, sem spilaði á Röðli, eina vínveitingastaðnum í borginni sem var opinn alla daga vikunnar, utan miðvikudaga sem voru vínlausir samkvæmt reglugerð. Í hljómsveitinni var fyrir söngvarinn ástsæli Vilhjámur Vilhjálmsson og fleiri úrvals tónlistarmenn sem tóku ungliðanum fagnandi og vel. Hljómsveitin spilaði meira og minna öll kvöld vikunnar, stóð fyrir útvarps- og sjónvarpsþáttum og ferðaðist um landið þvert og endilangt á sumrin. Árið 1969 kom út fyrsta sólóhljómplata Þuríðar og hafði að geyma tvö lög, „Ég ann þér enn" og „Ég á mig sjálf". Platan og söngurinn hlutu lof gagnrýnenda og í vinsældakosningum í blöðum og tímaritum komu titlar eins og „Vinsælasta söngkona ársins" og „Hljómplata ársins".

Eftir að hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar lét af störfum hófst samstarf með nokkrum hljómsveitum sem skipaðar voru helstu tónlistarmönnum landsins. Þar á meðal var hljómsveitin Íslandía, sem Þuríður stofnaði með Pálma Gunnarssyni. Einnig hljómsveitir Jóns Páls Bjarnasonar, Gunnars Þórðarsonar og Ragnars Bjarnasonar en með þeim síðastnefnda sem spilaði í Súlnasal Hótels Sögu ferðaðist hún um landið og skemmti, ásamt fleirum, undir merkjum Sumargleðinnar.

Að auki hefur Þuríður komið fram á fjölda skemmtana og tónleikum, m.a. á Hótel Sögu, Broadway og á Hótel Íslandi. Einnig hefur hún komið fram í ótal útvarps- og sjónvarpsþáttum.

Af Tónlist.is 2013.

Hópar

Hópur 1 Stöður Frá Til
Hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar Söngkona

Skjöl


Tengt efni á öðrum vefjum

Söngkona
Ekki skráð
Ekki skráð

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 10.12.2015