Þuríður Sigurðardóttir 23.01.1949-

<p>Þann 13. nóvember 1965 kom til sögunnar ný söngkona, Þuríður Sigurðardóttir, á hinum vinsælu, geysi-fjölbreyttu dansleikjum í Lídó, eins og sagði í auglýsingu í Morgunblaðinu. Helgina á eftir var því slegið upp að söngkonan hafi slegið í gegn og að þar færi ný stjarna! Hin 16 ára söngkona var í kjölfarið drifin í hljóðver og fyrsta lagið „Elskaði mig" var tekið upp og gefið út á hljómplötu með hljómsveitinni Lúdó og Stefáni.</p> <p>Skömmu síðar hófst fimm ára farsælt samstarf Þuríðar með hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar, sem spilaði á Röðli, eina vínveitingastaðnum í borginni sem var opinn alla daga vikunnar, utan miðvikudaga sem voru vínlausir samkvæmt reglugerð. Í hljómsveitinni var fyrir söngvarinn ástsæli Vilhjámur Vilhjálmsson og fleiri úrvals tónlistarmenn sem tóku ungliðanum fagnandi og vel. Hljómsveitin spilaði meira og minna öll kvöld vikunnar, stóð fyrir útvarps- og sjónvarpsþáttum og ferðaðist um landið þvert og endilangt á sumrin. Árið 1969 kom út fyrsta sólóhljómplata Þuríðar og hafði að geyma tvö lög, „Ég ann þér enn" og „Ég á mig sjálf". Platan og söngurinn hlutu lof gagnrýnenda og í vinsældakosningum í blöðum og tímaritum komu titlar eins og „Vinsælasta söngkona ársins" og „Hljómplata ársins".</p> <p>Eftir að hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar lét af störfum hófst samstarf með nokkrum hljómsveitum sem skipaðar voru helstu tónlistarmönnum landsins. Þar á meðal var hljómsveitin Íslandía, sem Þuríður stofnaði með Pálma Gunnarssyni. Einnig hljómsveitir Jóns Páls Bjarnasonar, Gunnars Þórðarsonar og Ragnars Bjarnasonar en með þeim síðastnefnda sem spilaði í Súlnasal Hótels Sögu ferðaðist hún um landið og skemmti, ásamt fleirum, undir merkjum Sumargleðinnar.</p> <p>Að auki hefur Þuríður komið fram á fjölda skemmtana og tónleikum, m.a. á Hótel Sögu, Broadway og á Hótel Íslandi. Einnig hefur hún komið fram í ótal útvarps- og sjónvarpsþáttum.</p> <p align="right">Af Tónlist.is 2013.</p>

Hópar

Hópur 1 Stöður Frá Til
Hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar Söngkona

Skjöl


Tengt efni á öðrum vefjum

Söngkona
Ekki skráð
Ekki skráð

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 10.12.2015