Pálmar Þ. Eyjólfsson (Pálmar Þórarinn Eyjólfsson) 03.07.1921-06.10.2010

Pálmar Þórarinn Eyjólfsson

Pálmar var fæddur í Skipagerði á Stokkseyri 3. júlí 1921. Hann lést á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Kumbaravogi 6. október 2010. Foreldrar hans voru Eyjólfur Bjarnason, f. 6. janúar 1869, d. 5. maí 1959, og kona hans Þuríður Grímsdóttir, f. 12. ágúst 1887, d. 5 ágúst 1970. Systkini Pálmars samfeðra voru Þórdís, f. 1898, Gjaflaug, f. 1902, og Bjarni, f. 1904. Systir sammæðra var Laufey, f. 1909. Alsystkini hans voru Guðný, f. 1910, Margrét, f. 1913, Eiríkur, f. 1913, Sigríður, f. 1916, Þorgrímur, f. 1923, Eyjólfur Óskar, f. 1928, og Þóra, f. 1931, og er hún ein eftirlifandi. Pálmar kvæntist þann 26. nóvember 1960 Guðrúnu Loftsdóttur, f. 13. júní 1932. Foreldrar hennar voru Loftur Andrésson, f. 26 september 1889, d. 15. nóvember 1979, og Helga Guðlaugsdóttir, f. 12. apríl 1905, d. 15. ágúst 1995, á Vestri-Hellum í Gaulverjabæjarhreppi. Börn Pálmars og Guðrúnar eru: 1) Andrés, f. 23. febrúar 1955. Börn hans eru: Guðrún Helga, f. 25. júní 1986. Magnús Arnar, f. 3. febrúar 1993. 2) Helga, f. 5. mars 1958. 3) Eyjólfur, f. 29. janúar 1960. Kona hans er Svanhildur Karlsdóttir, f. 5. janúar 1958. Dóttir hennar er Rakel Grettisdóttir, f. 4. mars 1980. Hún á soninn Patrek Loga, f. 11. febrúar 2010. Sonur Eyjólfs er: Magnús Kjartan, f. 21. febrúar 1983. Dóttir hans er: María Dögg, f. 17. apríl 2009.

Pálmar ólst upp á Stokkseyri og eftir barnaskólanám þar fór hann að stunda ýmsa verkamannavinnu. Hann fór 16 ára gamall til Vestmannaeyja og vann þar í nokkrar vertíðir. Lengstan hluta starfsævi sinnar vann Pálmar í Hraðfrystihúsi Stokkseyrar, starfaði hann þar um áratugaskeið. Kunnastur er hann þó fyrir störf sín í þágu tónlistar. Fljótlega fór að bera á miklum tónlistaráhuga og tónlistarhæfileikum hjá Pálmari. 19 ára gamall fór hann til orgelnáms hjá frænda sínum Sigurði Ísólfssyni. Naut hann kennslu hans og tilsagnar um nokkurra vikna skeið. Að öðru leyti má segja, að hann hafi verið sjálfmenntaður. Árið 1946 fer Pálmar að starfa sem organisti og kórstjóri við kirkjurnar í Gaulverjabæ og Stokkseyri. Sinnti hann þeim störfum nær samfellt um hálfrar aldar skeið. Karlakórssöngur var Pálmari ekki síður hugleikinn. Hann stjórnaði Karlakór Stokkseyrar meðan hann starfaði. Karlakór Vestmannaeyja stjórnaði hann í tvö ár, og Karlakór Selfoss í tvö ár. Í ársbyrjun 1976 stofnuðu nokkrir bændur í Gaulverjabæjarhreppi kvartett sem þeir nefndu Bændakvartettinn. Starfaði hann í um tuttugu ár undir stjórn Pálmars. Alla sína tíð fékst hann við tónsmíðar og samdi hann fjölda sönglaga, sem hafa mörg hver notið vinsælda. Söngvasafn með lögum eftir hann var gefið út 1980. Þá var gefinn út árið 1993 geisladiskur með lögum hans.

Pálmar hlaut menningarverðlaun Árborgar árið 1999, er þau voru veitt í fyrsta sinn.

Einstakur kirkjuvinur og starfsmaður er nú fallinn frá. Ljúft er að minnast hans ósérhlífnu þjónustu við kirkjustarfið, en hann var organisti með mér í tveimur kirkjum í 24 ár. Hvergi bar þar skugga á okkar samstarf. Ég hygg það nánast einstakt að verkamaður í frystihúsi hafi skilað jafn miklu ævistarfi á sviði tónlistarmála. Í Stokkseyrarkirkju starfaði hann í rúm 50 ár og í 58 ár í Gaulverjabæjarkirkju þar til hann hætti störfum haustið 2004.

Öll þessi ár lék hann við messur tvo sunnudaga af hverjum þremur nema yfir hásumarið. Í því starfi sýndi hann einstaka skyldurækni og samviskusemi og laun voru lengst af lítil þótt oft hafi hann orðið að sleppa vinnu þess vegna. Alltaf var hann boðinn og búinn að taka að sér verkefni við kirkjurnar. Sóknarbörnin leituðu til hans bæði í gleði og sorg og tók hann öllum af sinni einstöku ljúfmennsku. Pálmar var afkastamikið tónskáld og algengt var að lög eftir organistann væru sungin í kirkjunum. Hann hafði þessa frjóu hugsun og skilaði samtíð sinni fjölda góðra tónverka. Nefna má þar lagið Jól, sem sungið var sem stólvers í Gaulverjabæjarkirkju í áratugi í jólamessunni. Einnig lag við fyrsta passíusálm sr. Hallgríms, lag við sálm frú Rósu B. Blöndals, Ljómi Guðs veru eða lagið Láttu nú ljósið þitt. Af fleiri lögum má nefna sjómannasöng við ljóð Steingríms Thorsteinssonar sem oft var sunginn í sjómannadagsmessum. Boðafall sorgarmars fyrir orgel við jarðarfarir, en einnig ættjarðarlög eins og Flóinn, Svarfaðardalur, Stokkseyri og Laugardalur. Geisladiskurinn Sólnætur var gefinn út með 28 lögum eftir Pálmar en til munu vera á annað hundrað lög eftir hann í handriti. Margir tónlistarmenn og organistar um land allt leituðu til Pálmars ef vantaði nótur að lögum. Hann átti mikið safn af nótum sem hann hafði safnað í áratugi og bjargað mörgum þessara laga frá glötun. Ekki hefur þó þessi vinna hans farið hátt og fáir sem vita af þessu merkilega verki en Pálmar var mjög hógvær maður og flíkaði aldrei sínu. En hann gat leyst vanda margra er leituðu til hans og var það oft mikil vinna hjá honum áður en ljósritunartæknin kom til sögunnar því þá handskrifaði hann nóturnar og sat oft yfir því fram á nótt og sendi síðan til tónlistarfólksins. Pálmar var lista-nótnaskrifari og var það svo vel gert að varla var hægt að átta sig á að nóturnar væru handritaðar. Hann vandaði sannarlega til alls þess er hann tók sér fyrir hendur og hafði því með öllum sínum störfum lokið gríðarlegu dagsverki. Það er líka svo að organisti getur ekki bara leikið við messur heldur þarf hann að æfa sig og halda sér í góðu formi.

Starfsfólk eins og Pálmar sem hefur haldið kirkjustarfinu uppi að verulegu leyti með trúfesti sinni og ósérhlífni og í raun vegna ástar á Kirkju Krists og kirkjustarfinu hefur verið Þjóðkirkjunni ómetanlegt.

Öll þessi störf hans fyrir Þjóðkirkjuna vil ég þakka nú er leiðir skilur um sinn. Einnig þakka ég alla hans vináttu og kærleika og bið honum og fjölskyldu hans blessunar Guðs.

Úlfar Guðmundsson.

Kveðja frá söfnuði og kirkjukór Gaulverjabæjarkirkju

Það er lán hvers safnaðar að hafa traust og vandað fólk í hinu kirkjulega starfi. Nú er fallinn frá sá maður, sem setti hvað mest mark á söngstarf í Gaulverjabæjarkirkju á liðinni öld og fram á þessa. Pálmar Þ. Eyjólfsson tók við orgelleik og söngstjórn í kirkjunni árið 1946 og lét af störfum síðla árs 2004. Það var því í fimmtíu og átta ár sem hann var við stjórnvölinn á kirkjuloftinu og fór starfið einkar vel úr hendi. Ekki hið einasta stjórnaði hann kirkjukórnum, heldur samdi hann fjöldann allan af lögum, sem kórinn hér og aðrir kórar og söngfólk víða um land hafa sungið í gegnum tíðina, jafnt sálma og aðra kirkjulega tónlist sem veraldleg lög, en Pálmar var mjög afkastamikið tónskáld. Lögin hans eru mjög grípandi og gott að syngja þau og nótnaskrift hans og útsetningar voru listavel skrifaðar, hann var sannkallaður listamaður fram í fingurgóma. Pálmar fór gjarnan um víðan völl á söngæfingum, sýndi okkur í kórnum oft lög sem hann hafði fengið og honum þóttu áhugaverð eða sem hann átti í fórum sínum, einnig það sem hann hafði nýlega samið og leyfði okkur að heyra. Stundum talaði hann um hvernig hin og þessi lög eftir hann urðu til og frægt er þegar lagið „Flóinn“ kom til hans. Ljóðið eftir Freystein Gunnarsson var hann búinn að hafa undir höndum um tíma, svo eitt sinn er hann var að hjóla austur í Gaulverjabæjarhrepp í sumarblíðu og lognstillu að afloknum vinnudegi í frystihúsinu á Stokkseyri, hljómaði lagið allt í einu í höfðinu á honum og hann gerði síðan ekki annað en skrifa það niður. Svona var um mörg lög sem hann samdi, þau urðu til nánast fullsköpuð á einu augnabliki í huga listamannsins. „Flóinn“ var síðast sunginn við messu nú á sunnudaginn var, er Árnesingakórinn í Reykjavík sótti okkur heim. Það er gjarnan gripið til hans þegar mikið liggur við og er hann nú, svo gott sem, orðinn einkennissöngur okkar Flóamanna.

Pálmar var glettinn og gamansamur og oft var mjög glatt á hjalla á söngloftinu við æfingar og stundum sagðar sögur af mönnum og málefnum. Pálmar var góður félagi sem gott var að umgangast og gott að leita til.

Það er margs að minnast sem vert væri að rifja upp, en hér skal látið staðar numið. Megi Pálmar hafa þökk fyrir áratuga óeigingjarnt starf við kirkjuna okkar í Gaulverjabæ, sem hann sinnti af mikilli trúmennsku og virðingu fyrir viðfangsefninu og þar sem launin voru oft ánægjan ein. Hans mun ávallt verða minnst af mikilli hlýju og virðingu og nafn hans mun lifa um ókomna tíð, meðan lögin hans verða sungin og leikin.

Guðrún eiginkona Pálmars studdi mann sinn dyggilega í söngstjórastarfinu og er henni og fjölskyldunni allri send innileg samúðarkveðja.

Margrét Jónsdóttir og Margrét Stefánsdóttir. Pálmar Þórarinn Eyjólfsson lagði mikinn skerf til eflingar tónlistarlífi á Suðurlandi. Hann var ekki aðeins gott tónskáld, heldur tók hann einnig að sér leiðbeinendastörf og kórstjórn og hann var stjórnandi Karlakórs Selfoss á árunum 1968-1970. Áður hafði hann stjórnað m.a. Karlakór Vestmannaeyja og fleiri kórum.

Pálmar var einn þeirra manna sem heyrðu tónlist allt í kring um sig og var þeirri náðargáfu gæddur að geta komið þessum hugarsmíðum sínum niður á blað, svo við hin gætum notið þeirra.

Eftir Pálmar liggur mikill fjársjóður tónsmíða og í þann fjársjóð mun söngfólk og kórar geta sótt perlur um ókomin ár.

Í tilefni 80 ára afmælis Pálmars árið 2001 voru honum haldnir sérstakir heiðurstónleikar í Selfosskirkju, til að sýna tónskáldinu örlítinn þakklætisvott. Þar voru flutt 20 tónverk eftir hann, en var þó aðeins brot af því sem Pálmar afkastaði á langri og starfsamri ævi. Meðal þekktustu laga Pálmars er einkennislag lágsveitanna í Árnessýslu, Flóinn, við texta Freysteins Gunnarssonar. Það er gott dæmi um fallega lagasmíð, sem var svo einkennandi fyrir lög Pálmars.

Undirritaður átti því láni að fagna að taka viðtal við Pálmar fyrir Ríkisútvarpið, er hann varð áttræður og þar sagði Pálmar þessa setningu sem er svo minnisstæð, „Ég hef verið organisti í heila öld, við Gaulverjabæjarkirkju í 50 ár og önnur 50 ár við Stokkseyrarkirkju“. Þessi orð hans lýsa þeirri alúð og trúmennsku sem Pálmar lagði í öll sín verk.

Fyrir hönd sunnlenskra karlakóra vil ég þakka tónskáldinu Pálmari Þ. Eyjólfssyni fyrir ómetanlegt framlag til kóranna og sönglífs á Suðurlandi. Fjölskyldu hans votta ég samúð.

Valdimar Bragason, formaður Kötlu, Sambands sunnlenskra karlakóra.f

Heimild: Minningargreinar Morgunblaðsins 16. október 2010.

Staðir

Stokkseyrarkirkja Organisti 1946-1996
Gaulverjabæjarkirkja Organisti 1946-2000

Tengt efni á öðrum vefjum

Organisti og tónlistarmaður

Uppfært 16.02.2016