Bjarni Pálsson 18.06.1857-24.02.1887

<p>Bergur Sturlaugsson hét maður. Hann var fæddur 1682. Hann bjó í Brattsholti og var hreppstjóri í Stokkseyrarhreppi og forsöngvari í Stokkseyrarkirkju.</p> <p>Bergur í Brattsholti var talinn mikill söngmaður. Hann átti tólf börn, og hefir orðið mjög kynsæll. Hefir sönghneigðin verið kynfylgja meðal niðja hans og margir þeirra söngmenn góðir. Má þar einkum nefna syni Páls hreppstjóra Jónssonar á Syðra-Seli. Elztur þeirra var Bjarni Pálson. Hann var fæddur 18. júní 1857. Ólst hann upp í Götu og var kenndur við þann bæ.</p> <p>Bjarni Pálsson var óvenjulega góðum hæfileikum gæddur. Hann varð forgöngumaður í ýmis konar félagsmálum á Stokkseyri. Hann stofnaði bindindisfélag, samdi og æfði sjónleiki, varð kennari við barnaskóla Stokkseyrar. Hann lærði á eigin spýtur frönsku, svo að hann gat lesið og ritað það mál. Skrifaðist hann á við málsmetandi menn í Þýzkalandi og Frakklandi um áhugamál sín, einkum sönglistina. Hann lærði ungur að leika á harmonium og náði svo mikilli leikni í því, að hann mun á þeirri tíð hafa verið talinn fremsti organleikari á landinu. Þegar orgel kom í Stokkseyrarkirkju 1876, varð hann þar organleikari.</p> <p>Bjarna Pálssyni er svo lýst, að hann hafi verið ör í lund og hvergi látið hlut sinn; hann var skynsamur maður og gætti þess jafnan að láta ekki örlyndi sitt slíta vináttu við þá, sem hann hafði fest vináttu við, enda var hann sáttfús og mesta góðmenni. Hann var fríður sýnum, meðalmaður á hæð, nokkuð þrekinn, dökkhærður og augun gáfuleg og góðleg; göngulag hans hafði verið óvenjulega fallegt og fjörlegt.</p> <p>Bjarni Pálsson drukknaði í Þorlákshöfn 24. febrúar 1887 ásamt föður sínum og fjórum ungum og efnilegum mönnum.</p> <p>Þegar þess er gætt, hve ungur Bjarni Pálsson var, er hann féll frá, aðeins 29 ára gamall, en hafði þá reynzt svo mikill hæfileikamaður og athafnasamur, má telja víst, að hann hefði orðið einn af okkar merkustu tónlistarmönnum, hefði honum orðið lengra lífs auðið.</p> <p>Eftir lát Bjarna tók Jón bróðir hans við organleikarastarfinu á Stokkseyri, en af honum tók við ísólfur heitinn, og af honum Gísli bróðir þeirra, sem enn hefir það á hendi.</p> <p>Meðal barna Bjarna Pálssonar er Friðrik organleikari og tónskáld í Hafnarfirði.</p> <p align="right">Páll Halldórsson. Æskan. 1. júní 1941, bls. 63.</p>

Staðir

Stokkseyrarkirkja Organisti 1876-1887

Tengt efni á öðrum vefjum

Hugi Þórðarson uppfærði 12.12.2014